Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   lau 12. október 2019 13:36
Magnús Már Einarsson
Atli Sveinn að taka við Fylki
Atli Sveinn Þórarinsson í leik með KA.
Atli Sveinn Þórarinsson í leik með KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Atli Sveinn Þórarinsson er að taka við þjálfun Fylkis í Pepsi Max-deild karla samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Fylkismenn hafa verið í þjálfaraleit undanfarnar vikur en félagið tilkynnti í síðasta mánuði að Helgi Sigurðsson yrði ekki áfram við stjórnvölinn eftir að hafa þjálfað Fylki undanfarin þrjú ár.

Atli Sveinn hefur verið yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni undanfarin tvö ár en hann er núna að taka við Fylkismönnum.

Ólafur Ingi Skúlason, fyrirliði Fylkis, verður líklega spilandi aðstoðarþjálfari við hlið hans.

Atli Sveinn ólst upp hjá KA en hann lék með Örgryte í Svíþjóð í fjögur ár áður en hann fór í Val árið 2005 þar sem hann spilaði til ársins 2012 og varð meðal annars Íslands og bikarmeistari.

Hinn 39 ára gamli Atli lauk fótboltaferlinum með KA árið 2015 en í kjölfarið sneri hann sér að þjálfun. Atli hafði síðustu ár ferilsins einnig þjálfað yngri flokka hjá KA.

Árið 2016 var Atli Sveinn þjálfari hjá Dalvík/Reyni í 3. deild og ári síðar stýrði hann 2. flokki KA. Í febrúar 2018 tók hann síðan við sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni.

Reikna á með að Fylkir kynni Atla formlega sem nýjan þjálfara liðsins á næstu dögum.
Athugasemdir
banner
banner
banner