Frank vill endurnýja kynni sín við Schade - Guehi eftirsóttur - Upamecano til Liverpool?
   sun 12. október 2025 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
MLS: Dagur Dan, Messi og Müller á skotskónum
Mynd: Heimasíða Orlando City
Mynd: Vancouver Whitecaps
Dagur Dan Þórhallsson lék allan leikinn í hægri bakverði hjá Orlando City í nótt og skoraði eina mark liðsins í tapi á heimavelli gegn Vancouver Whitecaps.

Liðin mættust í mikilvægum slag á viðkvæmum tímapunkti tímabilsins en Vancouver trónir á toppi vesturhluta MLS deildarinnar með 63 stig eftir 33 umferðir. Það er aðeins ein umferð eftir af tímabilinu.

Dagur Dan skoraði eina markið í fyrri hálfleik en gestirnir frá Vancouver voru talsvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik og sneru stöðunni við eftir mikið erfiði. Lokatölur urðu 1-2 eftir að þýska goðsögnin Thomas Müller skoraði sigurmark á 97. mínútu.

Müller er þar með búinn að skora 7 mörk og gefa 4 stoðsendingar í 7 leikjum með Vancouver í MLS deildinni.

Orlando er áfram í sjöunda sæti í austurhlutanum fyrir lokaumferð deildartímabilsins. Orlando heimsækir Toronto FC til Kanada næsta sunnudag og þarf sigur til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni MLS.

Tapi Dagur Dan og félagar þeirri viðureign eiga þeir í hættu á að enda í umspilssæti um sæti í úrslitakeppninni.

Á sama tíma skoruðu Lionel Messi, Luis Suárez og Jordi Alba allir í þægilegum sigri Inter Miami.

Messi skoraði tvö og lagði eitt upp á meðan Alba skoraði og lagði upp. Inter er í öðru sæti í austurhlutanum, með 62 stig fyrir lokaumferðina.

Orlando City 1 - 2 Vancouver Whitecaps
1-0 Dagur Dan Þórhallsson ('24)
1-1 Nelson Pierre ('81)
1-2 Thomas Müller ('97)

Inter Miami 4 - 0 Atlanta United
1-0 Lionel Messi ('39)
2-0 Jordi Alba ('52)
3-0 Luis Suarez ('61)
4-0 Lionel Messi ('87)

Orlando City 1-[2] Vancouver Whitecaps - Thomas Müller 90+7'
byu/deception42 insoccer

Athugasemdir
banner
banner