
Gregg Berhalter, þjálfari bandaríska karlalandsliðsins, segir hafa íhuga að senda einn leikmann heim af heimsmeistaramótinu í Katar en hætti við eftir að leikmaðurinn bað hópinn afsökunar á viðhorfi sínu.
Bandaríska landsliðið komst alla leið í 16-liða úrslit HM en datt út eftir 3-1 tap fyrir Hollandi.
Einn leikmaður bandaríska liðsins var ekki að æfa jafn vel og hinir í hópnum og höfðu bæði leikmenn og þjálfaralið Bandaríkjanna áhyggjur af viðhorfi hans.
Bandarískir miðlar hafa skrifað mikið um þetta mál en leikmaðurinn sem um ræðir er Giovanni Reyna, leikmaður Borussia Dortmund í Þýskalandi.
Hann spilaði aðeins 7 mínútur gegn Englandi en var á bekknum bæði gegn Wales og Íran.
„Ég get gefið ykkur eitt dæmi. Á síðasta heimsmeistaramóti var leikmaður sem var augljóslega ekki að standast þær kröfur sem við gerum til leikmanna, bæði innan sem utan vallar. Hann var sá eini af þessum 26 sem stóðst ekki kröfurnar og var það því frekar augljóst. Við í þjálfaraliðinu ákváðum að setjast niður þar sem við ræddum lengi hvað við ættum að gera við þennan leikmann."
„Við vorum tilbúnir að bóka flugmiðann heim fyrir hann, svo slæmt var það. Við ákváðum að taka einn lokafund með honum og einn hluti af því var hvernig hann ætti að haga sér frá og með því augnabliki. Við vildum ekki að hann myndi brjóta fleiri reglur.“
„Annað sem við sögðum við hann er að hann þyrfti að biðja leikmannahópinn afsökunar og ekki bara einhverja litla afsökunarbeiðni heldur útskýra af hverju hann væri að biðjast afsökunar. Ég undirbjó svo leiðtogana í hópnum fyrir þetta og sagði þeim að hann ætlaði að gera þetta og það var bara yndislegt að sjá viðbrögðin þegar hann gerði þetta því þeir stóðu upp hver á fætur öðrum og bentu honum á að hann væri ekki búinn að standast þær kröfur sem við gerðum til hans og þeir kölluðu eftir því að þetta myndi breytast.“
„Þeir eignuðu sér þetta ferli og það var ekkert vandamál með leikmanninn eftir þetta atvik. Þegar þú ert að díla við þessa hluti sem þjálfari þá þarftu að fara til baka og skoða þau gildi sem þú stendur fyrir því það er erfitt að senda leikmenn heim. Þetta hefði skapað mikla umræðu og við hefðum þurft að lesa um þetta næstu fimm daga á eftir. Við vorum samt tilbúnir til að taka þessa ákvörðun því hann var ekki að standast kröfur hópsins og leikmennirnir voru líka tilbúnir að láta hann fara,“ sagði Berhalter.
Reyna spilaði 45 mínútur í lokaleiknum gegn Hollandi og þótti líflegur í sóknaraðgerðum Bandaríkjamanna gegn annars sterku liði Hollands. Reyna er með efnilegustu leikmönnum bandaríska liðsins en fékk lítið að spreyta sig og er nú ástæðan fyrir því nokkuð skýr.
Athugasemdir