„Ég er búinn að halda mikilli tengingu við kvennaboltann og hef fylgst með mörgum leikjum. Ég var alltaf opinn fyrir því að snúa aftur.“
Ian Jeffs er nýr þjálfari ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í kvennaflokki. Hann tekur við starfinu af Nik Chamberlain sem er tekinn við sænska liðinu Kristianstad.
Fyrstu vikurnar í starfi Ian voru nokkuð óhefðbundnar, þar sem Nik Chamberlain stýrði liðinu áfram út nóvembermánuð eftir að Jeffsy var kynntur sem nýr þjálfari.
Fótbolti.net ræddi við Ian um fyrstu vikurnar í starfi, hvernig það væri að snúa aftur í kvennaboltann og um leikmannamál.
Fyrstu vikurnar í starfi Ian voru nokkuð óhefðbundnar, þar sem Nik Chamberlain stýrði liðinu áfram út nóvembermánuð eftir að Jeffsy var kynntur sem nýr þjálfari.
Fótbolti.net ræddi við Ian um fyrstu vikurnar í starfi, hvernig það væri að snúa aftur í kvennaboltann og um leikmannamál.
„Ég kom inn í kringum þessa Evrópukeppni, þar sem liðið var að klára einvígið gegn Fortuna. Ég vissi allan tímann að ég væri ekki að fara blanda mér inn í undirbúninginn fyrir þá leiki. Fyrstu tvær vikurnar var ég bakvið tjöldin og að koma mér inn í starfið. Ég talaði lítið við leikmenn og var ekki að trufla neitt, ég leyfði hópnum að klára verkefnið.
Ég kannaði stöðuna varðandi leikmannamál og bjó til mitt teymi. Það eru ekki búnar að vera neinar æfingar, stelpurnar komnar í frí núna. Við erum bara búnir að hitta hópinn einu sinni - bara til að kynna okkur og segja frá okkar sýn á næstu vikum. Þær eru í viðhaldsprógrammi í desember.“
Hvernig er að koma inn sem nýr þjálfari við þessar aðstæður?
„Það er aldrei þægilegt að koma inn án þess að vera með liðið í höndunum. Það er yfirleitt þannig að þú ert að koma inn eftir tímabil og stutt í að undirbúningstímabilið hefst. Þetta var svolítið spes. Það góða í þessu er að við eigum hörkuleik í febrúar og þess vegna var tímabilið lengra. Það er virkilega gott að eiga þessa leiki gegn Hacken í febrúar, ég kvarta ekkert undan því.“
Snýr aftur í kvennaboltann
Ian hefur stýrt kvennaliði ÍBV, verið aðstoðarþjálfari kvennalandsliðs Íslands. Síðustu fjögur ár hefur hann stýrt karlaliði Þróttar og svo Haukum. Hann var spurður hvort að það væri mikil breyting að snúa aftur í kvennaboltann.
„Nei, ég myndi ekki segja það. Ég er búinn að halda mikilli tengingu við kvennaboltann og hef fylgst með mörgum leikjum. Ég var alltaf opinn fyrir því að fara aftur í kvennaboltann. Þetta æxlaðist þannig að síðustu fjögur ár var ég bara með karlalið.
Ég hafði aldrei útilokað að snúa aftur í kvennaboltann. Þegar þetta tækifæri kom upp á borð til mín, þá fannst mér þetta spennandi og eitthvað sem ég vildi grípa.“
Tvöfaldir meistarar
Breiðablik eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar, markmiðið fyrir næsta tímabil hlýtur að vera að endurtaka leikinn.
„Við erum með þannig hóp af leikmönnum að það er mikill sigurvilji í hópnum. Þær vilja bara vinna fótboltaleiki og titla. Þetta er bara hugarfarið í félaginu og ég sé enga breytingu á því. Við viljum halda áfram að gera gott starf hérna. Við munum gera okkar besta til að Breiðablik sé áfram í fremstu röð í kvennaboltanum.“
Stórir póstar á útleið
Þær Samantha Smith og Heiða Ragney Viðarsdóttir yfirgáfu báðar Breiðablik nýverið. Heiða gekk til liðs við sænska félagið Eskilstuna en Samantha hefur verið orðuð við endurkomu til Bandaríkjanna.
„Sammy fór beint eftir tímabil. Ég vissi það þegar ég var að skrifa undir, þannig það kom ekkert á óvart. Ég reyndi að halda Heiðu hjá okkur, en ég skildi vel að hún vildi grípa þetta tækifæri sem henni bauðst. Það er erfitt að segja eitthvað annað en gangi þér vel. Vonandi stendur hún sig vel þarna úti og gerir það gott.“
„Nú erum við að vinna í öðrum leikmönnum sem eru að renna út af samning og erum vongóðir um að við höldum sem flestum leikmönnum. Þetta gerist oft eftir góð tímabil eins og Breiðablik átti núna, þá kemur áhugi erlendis frá. Þetta er eitthvað sem við erum meðvituð um. En ég er bjartsýnn á að við getum haldið þessum leikmönnum hjá okkur.“
Evrópubikarinn um miðjan febrúar
Breiðablik vann frækinn sigur á dönsku meisturunum í Fortuna Hjörring í Evrópubikarnum. Breiðablik tryggði sér þar með sæti í 8-liða úrslitunum og mun mæta sænska liðinu Hacken um miðjan febrúar.
Liðið fékk tveggja vikna frí eftir seinni leikinn gegn Fortuna. Á mánudaginn fyrir viku hófust svo léttar viðhaldsæfingar.
„Við vildum gera þetta til að viðhalda því formi sem var í staðinn fyrir að byrja í janúar á núllpunkti. Ég held að við höfum ekki tíma til að vinna upp formið fyrir leikinn gegn Hacken um miðjan febrúar.“
„Eins og staðan er núna fæ ég einn leik í Lengjubikarnum fyrir leikinn gegn Hacken. Þetta verður fyrsti alvöru leikurinn, kemur ansi snemma. En við undirbúum okkur bara fyrir það,“ sagði Ian að lokum.
Athugasemdir



