'Eftir tímabilið 2024 fór þessi möguleiki að berast í tal, mér leist ágætlega á það, mér fannst þetta spennandi'
Jóhannes Þór Harðarson er aðstoðarþjálfari norska liðsins Start. Hann náði í síðasta mánuði því afreki að fara með liðinu í þriðja sinn upp um deild.
Jóhannes er 49 ára og hefur nánast samfleytt verið í Noregi frá árinu 2004. Hann kom frá Hollandi og spilaði með Start út tímabilið 2008. Hann var svo hjá Flöy í sex ár áður en kallið kom frá ÍBV þar sem hann var í um hálft tímabil áður en hann þurfti að yfirgefa stöðu sína og halda aftur til Noregs hvar hann hefur verið síðan. Hann hefur bæði verið aðal- og aðstoðarþjálfari Start, þjálfari Flöy og unnið fyrir norska fótboltasambandið.
Fótbolti.net ræddi við Jóhannes í síðustu viku, fréttamaður náði tali á honum þegar þjálfarinn var að setja upp jólatré heima hjá sér í Kristiansand.
Jóhannes er 49 ára og hefur nánast samfleytt verið í Noregi frá árinu 2004. Hann kom frá Hollandi og spilaði með Start út tímabilið 2008. Hann var svo hjá Flöy í sex ár áður en kallið kom frá ÍBV þar sem hann var í um hálft tímabil áður en hann þurfti að yfirgefa stöðu sína og halda aftur til Noregs hvar hann hefur verið síðan. Hann hefur bæði verið aðal- og aðstoðarþjálfari Start, þjálfari Flöy og unnið fyrir norska fótboltasambandið.
Fótbolti.net ræddi við Jóhannes í síðustu viku, fréttamaður náði tali á honum þegar þjálfarinn var að setja upp jólatré heima hjá sér í Kristiansand.
„Ég var á Íslandi í byrjun mánaðar, í smá heimsókn, en er komin út aftur. „Heima" er fyrir mér ennþá Ísland þó að við fjölskyldan höfum verið hérna frá árinu 2004," segir Jóhannes sem hefur búið í sama húsinu allan tímann í Noregi.
„Við kunnum vel við okkur, það er vel hugsað um mann, góðar aðstæður, konan í góðri vinnu og stelpurnar hafa alist hér upp. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að búa einhvers staðar annars staðar í Noregi, þó að maður útiloki ekkert. Það er allavega yfir litlu að kvarta. Félagið er í ákveðinni uppbyggingu, aðstæðurnar fínar, völlurinn frábær. Það er margt við Start sem segir að það eigi að vera í úrvalsdeildinni og geti náð stöðugleika þar. Það er í forgangi næstu 2-3 árin."
Vann á sama stað
Jóhannes var aðstoðarþjálfari Start á árunum 2017-19, tók svo við sem aðalþjálfari en var rekinn um mitt mót 2021.
„Ég kom aftur inn í Start í byrjun árs. Ég hafði verið áður, bæði aðalþjálfari og svo aðstoðarþjálfari. Ég var að vinna fyrir norska sambandið, skrifstofan á sama stað og Start er með sínar skrifstofur og ég hitti nokkuð reglulega á þjálfarateymið og þjálfarann (Azar Karadas) nokkuð reglulega. Eftir tímabilið 2024 fór þessi möguleiki að berast í tal, mér leist ágætlega á það, mér fannst þetta spennandi. Það eru komnir nýir eigendur frá fyrri tíma mínum hjá Start, fínn andi í félaginu og skemmtileg stemning."
Sem starfsmaður norska sambandsins bar Jóhannes ábyrgð á leikmannaþróuninni fyrir yngri landsliðin í Agder í Suður-Noregi.
„Það var fínt starf, fínt að komast út úr því að vinna hjá klúbbum sem ég hafði gert í mörg ár. Maður fær aðra sýn og vinkla á fótboltann. Það var gaman að kynnast landsliðsbatteríinu hjá Noregi, en það kitlaði alltaf að fara aftur í klúbbafótboltann og þetta var fínt tækifæri."
„Ég var með tilboð annars staðar frá, en fjölskyldunnar vegna ákvað ég að vera hér. Það virtist líka vera ákveðinn uppgangur í félaginu og þetta varð lendingin. Það hefur gengið framar öllum vonum."
Lesendur muna kannski eftir endalokunum á tímablinu 2023 hjá Start en þá var ekki til fjármagn til að halda úti leikhæfum velli í umspilinu um sæti í úrvalsdeildinni og liðinu var því dæmdur ósigur.
Markmiðð var ekki að fara upp
Jóhannes segir að markmiðið hafi ekki verið að fara upp úr B-deildinni í ár.
„Við ætluðum okkur í rauninni ekki upp, þetta ár átti að fara í að ná stöðugleika. Liðið var í töluverðu basli í fyrra, var í 12. sæti sem var held ég lélegasti árangur Start frá upphafi. Það var óraunhæft þannig lagað að tala um að fara upp."
„Þegar við byrjuðum þá horfðum við í möguleikann á að ná umspilssæti, það varð markmiðið. Lilleström flaug í gegnu mótið, náði strax miklu forskoti. Við komumst í 2. sætið um mitt sumar og náðum smá forskoti á hin liðin. Nálgunin var áfram bara næsti leikur og næsta æfing, ræddum ekkert um þetta fyrr en komið var að síðasta leik. Þá vorum við stigi á eftir Kongsvinger, þurftum að vinna okkar leik og stóla á að þeir myndu tapa stigum í sínum leik."
„Við enduðum á því að vinna 3-0 og þeir gerðu 0-0 jafntefli í sínum leik og við fórum upp fyrir þá í 2. sætið."
Var þetta bara þannig að íslenski töframaðurinn mætir og allt gengur upp?
„Ég skal ekki alveg segja það. Ég hef tekið þátt í þessu áður, þetta er í þriðja skiptið sem ég kem að liðinu sem þjálfari og liðið fer upp. Nú gildir að halda sér uppi í deild þeirra bestu og ná einhverjum stöðugleika þar. Þetta er búið að vera alltof mikið flakk og óstöðugleiki í kringum þetta lið."
„Ég kom inn í þjálfarateymið undir lokin 2017 og við fórum þá upp. Svo var ég aðalþjálfari 2019 og þá fórum við upp líka."
Hefðu endað í efri hluta úrvalsdeildarinnar
Lilleström vann deildina með gríðarlegum yfirburðum, liðið endaði ósigrað í toppsæti deildarinnar, með 25 stigum meira en Start.
„Þetta var eins og tvær deildir. Ég held að þeir séu núna taplausir í 40+ leikjum. Þeir gerðu nokkur (5 jafntefli) en töpuðu ekki leik í deildinni, síðan voru þeir að vinna bikarinn."
Lilleström vann bikarinn eftir úrslitaleik gegn Sarpsborg. Í aðdraganda úrslitaleiksins lék Lilleström æfingaleik gegn Breiðabliki á Laugardalsvelli.
„Það kom mér ekki mikið á óvart að þeir unnu úrslitaleikinn. Ég er handviss um að þetta lið hefði spjarað sig fínt í úrvalsdeildinni í ár, einhvers staðar í topp 6-8 í úrvalsdeildinni. Það eru hellingsgæði í liðnu, frábært lið og bæði gaman að spila við þá og eins horfa á þá spila, virkilega sterkt lið."
Skelfilega mikil spenna undir lokin
Hvernig var að taka þátt í þessu tímabili með Start?
„Það gekk vonum framar. Við áttum gott undirbúningstímabil, fórum taplausir í gegnum það og enduðum á að sigra verðandi meistara í Viking 4-3 í generalprufunni. Það var fínn stígandi og við töldum okkur eiga möguleika á að hanga í efri hlutanum. Svo fáum við sjálfstraust, eigum tvo kafla á tímabilinu þar sem við lendum í vandræðum, en unnum okkur fljótt upp úr því. Við náðum að byggja ofan á sjálfstraustið sem myndaðist."
„Það var geggjað að taka þátt í þessum síðasta leik, unnum Lyn á útivelli og komumst upp. Það var hellings uppbótartími í leiknum hjá Kongsvinger, við vorum búnir að vinna okkar leik og vorum að fylgjast með hjá þeim. Þeir fengu einhver 2-3 góð færi undir lok leiksins, alveg skelfilegt (mikil spenna) að horfa upp á þetta , en þvílík ánægja að ná að klára þetta."
„Það var vel fagnað í bænum, það er rosalegt 'potential' í bænum varðandi stuðningsmenn, það er búin að vera löng bið eftir árangri, liðinu hefur tekist að fara upp en það hefur ekki náðst að fylgja því eftir með því að halda sætinu. Það er langt síðan félagið hefur náð einhverjum alvöru árangri."
Jóhannes verður áfram í teyminu. „Það lítur út fyrir að sama teymi haldi áfram, vonandi náum við að bæta við það. Það eru öðruvísi kröfur í efstu deild og vonandi getum við fengið innspýtingu inn í teymið líka."
Gætu leitað á íslenska markaðinn
Þá að klassísku spurningunni, er Start með einhver íslensk nöfn á blaði þegar kemur að leikmannamálum?
„Já, við erum með það. Íslenski markaðurinn er athyglisverður fyrir okkur, við höfum svo sem ekki mikið á milli handanna varðandi að kaupa leikmenn, en það eru nokkrir leikmenn sem við höfum verið að skoða, bæði leikmenn sem hafa verið að spila á Íslandi og eins Íslendingar sem hafa verið að spila erlendis. Það er ekkert í pípunum akkúrat núna, en það er ekki ólíklegt að við reynum eitthvað fyrir okkur varðandi að fá inn íslenskan leikmann. Við verðum bara að sjá til, skýrist kannski á næstu vikum."
„Það að við fórum upp núna kemur eiginlega aðeins of snemmt fyrir félagið, það var ekki stefnan, það átti fyrst að ná stöðugleika í 1. deildinni áður en atlagan að úrvalsdeildarsæti yrði gerð. Nýju bandarísku eigendurnir eru held ég að reyna finna út úr því núna hvernig þeir eiga að snúa sér í þessu."
Hafa verið fundir um hvernig þurfi að breyta planinu eftir að liðið fór upp?
„Já, það hafa verið nokkuð stíf fundarhöld eftir að við fórum upp. Á lokakaflanum voru tvær sviðsmyndir settar saman, eftir því hvar við myndum spila á næsta tímabili. Það var samt ekkert allt klárt eftir að við komumst upp, menn þurfa aðeins að vinna aðeins úr þessu og sjá hvað hægt er að gera."
Óvæntir meistarar og vel tekið í Freysa
Jóhannes fylgist nokkuð vel með norsku úrvalsdeildinni. Viking varð meistari og Freyr Alexandersson stýrði Brann í 4. sætið.
„Það kemur á óvart að Viking hafi náð að klára þetta. Viking er með frábært og mjög skemmtilegt lið, en að þeir hafi náð að hanga svona lengi þarna uppi í gegnum tímabilið og ná þessum stigafjölda er mjög vel gert. Það er mjög sjaldgæft að tvö lið, Viking og Bodö/Glimt, nái svona miklum stigafjölda. Frábærlega gert hjá Viking sem var í fyrstu deild fyrir ekki svo löngu síðan. Það er búið að byggja upp félagið og liðið, mjög vel gert síðastliðin ár."
„Norðmenn eru að taka mjög vel í Freysa, allavega það sem ég sé og heyri. Hann er mjög fljótt búinn að ná góðum tökum á félaginu og fólkinu í Bergen, hefur gert mjög vel og virðist vera mjög vinsæll. Það var örugglega svolítið svekkjandi fyrir þá að ná ekki 3. sætinu. En Freyr er búinn að gera mjög vel, feikilega vel spilandi lið og skemmtilegt að horfa á þá. Árangurinn í Evrópu er líka búinn að vera mjög fínn. Ég held að Freysi sé búinn að koma sér vel fyrir og í góða stöðu í norskum fótbolta nú þegar."
Gerir ráð fyrir endurkomu til Íslands en óvíst hvenær
Jóhannes hefur ekki verið nálægt því að snúa aftur í íslenska boltann síðastliðin ár.
„Ég var í Eyjum 2015, það endaði leiðinlega. Ein af dætrum mínum veiktist og ég þurfti frá að hverfa um mitt tímabil. Mér fannst tíminn í Eyjum samt frábær, geggjað að taka þátt í þessu og ég kynntist fullt af frábæru fólki. Á einhverjum tímapunkti geri ég ráð fyrir því að það verði endurkoma í íslenska boltann."
Fylgist með sínum mönnum og hrósar aðstöðunni
Jóhannes varð Íslandsmeistari sem leikmaður ÍA tímabilin 1995 og 1996.
„Ég reyni eins og ég get að fylgjast með því sem er að gerast á Skaganum, ég kíkti aðeins á þá um daginn og fékk smá kynningarferð um nýju aðstöðuna, plönin næstu árin og hvað þeir sjá fyrir sér í vallarmálum og annað slíkt. Það er komin geggjuð aðstaða upp frá, mjög athyglisvert."
Er aðstaðan hjá ÍA nálægt því sem gengur og gerist í norsku úrvalsdeildinni?
„Ég myndi segja að fyrir utan sjálfan leikvanginn, völlinn, þá er aðstaðan ansi nálægt því að vera í norskum úrvalsdeildarklassa. ÍA er náttúrulega með höllina þannig lagað út af fyrir sig og æfingavelli. Þú sérð ekki mörg félög hér úti sem eru með samskonar æfingaaðstöðu, þau eru ansi fá. Núna eftir breytingarnar hjá ÍA bætist við frábær líkamsræktarsalur sem er í toppklassa," segir Jóhannes sem komst loksins aftur í að setja upp jólatréð.
Athugasemdir




