David á blaði hjá Man Utd, Liverpool og Arsenal - Liverpool undirbýr tilboð í Tchouameni - Man Utd reynir aftur við Branthwaite
   sun 13. janúar 2019 19:27
Magnús Már Einarsson
Ragnheiður Ríkharðs íhugar framboð í formann KSÍ
Mynd: Alþingi
Ragnheiður Ríkharðsdóttir tilkynnti á Facebook í kvöld að hún sé að íhuga að bjóða sig fram sem formaður KSÍ á ársþingi sambandsins þann 9. febrúar næstkomandi.

Geir Þorsteinsson, heiðursformaður KSÍ, tilkynnti á dögunum að hann ætli að bjóða sig fram gegn Guðna Bergssyni sem hefur verið formaður undanfarin tvö ár.

Ragnheiður íhugar nú að blanda sér í slaginn. Ragnheiður er frá Akranesi en faðir hennar er Ríkharður Jónsson sem er einn besti fótboltamaður sögunnar á Íslandi.

Ragnheiður er fyrrum alþingiskona og fyrrum bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Þá er hún einnig fyrrum skólastjóri. Sonur hennar er fyrrum landsliðsmaðurinn Ríkharður Daðason.

„Í ljósi þess að Geir Þorsteinsson ætlar að bjóða sig fram til formanns KSÍ á nýjan leik þá er ég að velta fyrir mér að gefa kost á mér líka. Held að það gæti hleypt fjöri í kosninguna. Ég hef mikla stjórnunarreynslu sem og reynslu af félagsmálum, áhugamanneskja um fótbolta frá barnsaldri bæði sem dóttir og mamma, held að þessi reynsla mín gæti nýst í starfinu, " sagði Ragnheiður á Facebook í kvöld.

Tilkynna þarf framboð tveimur vikum fyrir ársþing eða í síðasta lagi laugardaginn 26. Janúar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner