Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
   lau 13. apríl 2024 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Xavi: Hann þarf að læra
Mynd: EPA
Brasilíski sóknarmaðurinn Vitor Roque hefur fengið fáar mínútur til að spreyta sig með Barcelona á þessu tímabili en Xavi, þjálfari liðsins, segir að hann þurfi að læra vissa hluti áður en hann fær meiri spiltíma.

Roque er 19 ára gamall og kom til Barcelona frá Athletico Paranaense um áramótin.

Hann hefur aðeins spilað 248 mínútur í 12 leikjum og skorað tvö mörk.

Xavi vill ekki kasta honum beint í djúpu laugina heldur leyfa honum að aðlagast leikstíl liðsins.

„Hann er leikmaður sem gefur okkur mikið þó hann sé ekki endilega að spila. Hann mun fá mínútur gegn Cadiz því hann á það skilið og af því við höfum mikla trú á honum sem fótboltamanni,“ sagði Xavi um Roque.

„Við erum að reyna að hafa áhrif á hvernig hann á að skilja leikinn. Við einbeitum okkur aðallega að taktískum vandamálum. Hann er fótboltamaður sem kemur sér í svæðin og ég er viss um að hann eigi eftir að nýta sér það. Hann hefur kosti sem eru afar mikilvægir og eiga eftir að springa út. Gæðin eru þarna en það eru ákveðin atriði sem hann þarf að læra og það er nákvæmlega það sem við erum að vinna í. Við höfum undirbúið myndband handa honum, sem sýnir honum hvaða atriði hann þarf að einbeita sér að,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner