Marcus Rashford hefur ákveðið að fara í aðgerð á öxl eftir að hafa fundið mikið til í henni á seinni hluta síðasta tímabils. Hann skaddaði öxlina það mikið að hvíld dugir ekki heldur þarf hann aðgerð.
Rashford fer í aðgerð til sérhæfðs skurðlæknis sem er í fríi næstu vikurnar. Aðgerðin mun því eiga sér stað í lok júlí og mun það taka Rashford um það bil þrjá mánuði að ná sér aftur.
Rashford verður því ekki leikhæfur með Manchester United fyrr en í seinni hluta október mánaðar og missir af fyrstu mánuðum keppnistímabilsins.
Landsliðsfélaginn Jadon Sancho mun væntanlega taka stöðu Rashford í liðinu ef félagaskiptin frá Dortmund ganga í gegn.
Rashford hefur eflaust gott af góðri hvíld þar sem hann hefur spilað meiddur í langan tíma. Auk þess að vera meiddur líkamlega gæti andlega hliðin verið betri hjá Rashford eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu í úrslitaleik Evrópumótsins og fengið ótrúlega mikið hatur frá samlöndum sínum í kjölfarið.
Athugasemdir