Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   lau 13. júlí 2024 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Patrice Evra dæmdur fyrir að yfirgefa fjölskylduna sína
Mynd: EPA
Mynd: Evra/Twitter
Patrice Evra, fyrrum bakvörður Manchester United og franska landsliðsins, hefur verið dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að 'yfirgefa fjölskyldu sína'. Auk þess þarf hann að borga 4000 evrur í sekt til eiginkonu sinnar, Sandra Evra, og 2000 evrur í málskostnað.

Evra hefur neitað að borga meðlag til eiginkonu sinnar síðustu ár og ákvað hún að fara með málið fyrir dómstóla í Frakklandi. Heildarupphæð greiðslanna sem vantar er nálægt einni milljón evra.

Evra, 43 ára, mætti ekki sjálfur í dómssal en lögmenn hans bentu á að skjólstæðingur sinn teldi sig vera búinn að borga þetta meðlag og vel rúmlega það. Þeir segja Evra hafa borgað fyrir villuna sem kona hans og börn hafa búið í, auk þess að hafa lánað konu sinni tvær milljónir evra sem hún hefur ekki greitt honum til baka.

Dómarar málsins telja að Evra hafi yfirgefið eiginkonu sína og tvö börn þeirra undir lögaldri á tímabilinu frá 1. maí 2021 til 28. september 2023.

Lögmenn Evra voru snöggir að áfrýja dómnum og mun þetta mál því dragast á langinn.

Patrice og Sandra hans hafa verið aðskilin síðustu ár, eftir að Evra var myndaður við að kyssa danska módelið Margaux Alexandra.

Evra á í dag tvö börn með Margaux og er talið að parið búi saman í Dúbaí.

„Ástarsaga lífsins varð að martröð. Við áttum frábær jól og áramót saman sem fjölskylda og tveimur dögum síðar fór Evra í burt til að starfa í London. Hann átti að vera þar í tvær vikur en ég hef ekki talað við hann síðan þá. Hann hefur reynt að útiloka mig algjörlega úr lífinu sínu," er meðal þess sem Sandra Evra sagði í viðtali.

„Ég sá myndir af honum með annari konu í London og svo fékk ég símtal frá lögmanninum mínum sem sagði að Patrice væri að fara fram á skilnað. Það var versti dagur lífsins, ég fór í algjört sjokk."

Fangelsisdómur Evra er skilorðsbundinn til tveggja ára og fer hann því í fangelsi ef hann brýtur aftur af sér á næstu árum.
Athugasemdir
banner
banner