
Kolbeinn Sigþórsson spilaði einungis sextán mínútur í 4-2 tapinu gegn Pólverjum í kvöld. Kolbeinn fiskaði vítaspyrnu á þriðju mínútu og meiddist á sama tíma.
Lestu um leikinn: Pólland 4 - 2 Ísland
„Ég var að fara að skjóta í boltann og hann fer í mig. Ég fer stuðningsfótinn í grasið og það snýst vel upp á ökklann á mér. Ég er pínu bólginn en get labbað þokkalega vel. Vonandi er þetta ekki slæmt," sagði Kolbeinn við Fótbolta.net eftir leik en hann reyndi að spila áfram.
„Ég reyndi að hlaupa þetta af mér en fann of mikið til í þessu. Ég held að það hafi verið skysamlegast að fara út af og sjá hvernig ökklinn verður á morgun. Ég er jákvæður á að þetta sé ekki slæmt," sagði Kolbeinn sem vonast til að ná leiknum gegn Slóvakíu á þriðjudag.
„Ég vona það. Vonandi er ekki mikil bólga í þessu og ég tek status á þessu á morgun."
Kolbeinn var ánægður með nýja menn sem komu inn í liðið í kvöld.
„Þó að við höfum tapað þá fannst mér leikmennirnir sem komu inn í þetta standa sig vel. Það er fínt að hafa menn sem eru klárir ef menn meiðast eða detta út. Mér fannst menn sýna að þeir eru tilbúnir í slaginn. Það eykur breiddina og er fínt fyrir okkur."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir