Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   þri 14. maí 2024 19:23
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Valur kom til baka og skóp þægilegan sigur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 3 - 1 Tindastóll
0-1 Hugrún Pálsdóttir ('10)
1-1 Fanndís Friðriksdóttir ('38)
2-1 Fanndís Friðriksdóttir ('40)
3-1 Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir ('48)

Lestu um leikinn: Valur 3 -  1 Tindastóll

Valur tók á móti Tindastóli í fyrsta leik kvöldsins í Bestu deild kvenna og byrjuðu gestirnir frá Sauðárkróki af krafti á Hlíðarenda.

Stólarnir tóku forystuna snemma leiks þegar Hugrún Pálsdóttir skoraði laglegt mark með því að lyfta boltanum yfir Fanneyju Ingu Birkisdóttur sem var komin af marklínunni.

Tindastóll komst í tvígang nálægt því að tvöfalda forystuna í fyrri hálfleik áður en Valskonur vöknuðu til lífsins og byrjuðu að þjarma að gestunum.

Það eru mikil gæði í liði Vals og skoraði landsliðskonan fyrrverandi Fanndís Friðriksdóttir tvennu á stuttum kafla til að snúa stöðunni við, eftir góðan undirbúning frá Amöndu Jacobsen Andradóttur í fyrra markinu og Katie Cousins í því seinna.

Valur komst nálægt því að tvöfalda forystuna fyrir leikhlé en það hafðist ekki fyrr en í upphafi síðari hálfleiks. Þar var Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir á ferðinni þegar sem hún skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Camryn Paige Hartman.

Tindastóll sá ekki til sólar eftir góða byrjun og sigldi Valur þægilegum sigri í höfn. Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom inn af bekknum á 73. mínútu en þetta er annar leikurinn sem hún spilar í íslenska boltanum eftir fjögurra ára fjarveru.

Valur er áfram með fullt hús stiga eftir þennan sigur og með markatöluna 17-2 eftir fimm umferðir.

Tindastóll situr eftir um miðja deild með 6 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner