
Keflavík vann sterkan sigur á liði Stjörnunar á HS Orkuvellinum í kvöld þegar liðin mættust þar í níundu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Elín Helena Karlsdóttir og kom Keflavík í forystu. Ekki var meira skorað í leiknum og 1-0 sigur Keflavíkur staðreynd, þeirra fyrsti frá því í annari umferð mótsins þann fjórða maí
Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 0 Stjarnan
„Tilfinningin er geggjuð og þetta er mjög kærkomið.“
Sagði Kristrún Ýr Holm fyrirliði Keflavíkur um tilfinninguna en eins og áður sagði er langt um liðið síðan að Keflavík vann síðast leik og voru leikmenn eflaust orðnir langeygðir eftir sigrinum.
Keflavíkurliðið sýndi meiri kraft sóknarlega á köflum í leiknum en liðið hefur gert að staðaldri í sumar þó sennilegast verði að segja að gestirnir hafi skapað fleiri færi í dag. En hefur það verið uppleggið að undanförnu að sækja á fleiri mönnum og setja aukin kraft í sóknarleikinn?
„Algjörlega, við erum að þora að spila meira en við gerðum en við vorum samt varnarsinnaðar í dag. Mér fannst sóknarleikurinn vera alveg ágætur í dag þótt hann hefði mátt vera betri en varnarleikurinn var að mér fannst upp á tíu. “
Eftir magra tíð að undanförnu og töp í jöfnum leikjum ætti þessi sigur að gefa Keflavíkurkonum sjálftraust upp á framhaldið að gera.
„Klárlega. Þessir tapleikir, við vorum ekkert að eiga neitt slæma leiki þó við höfum náttúrulega tapað þeim en þetta hefur verið uppbygging hjá okkur og ég er mjög sátt með útkomuna í dag. “
Sagði Kristrún en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir