
Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir er svekkt og pirruð að liðinu hafi ekki tekist að ná í sigur gegn Ítölum í kvöld en leiknum lauk með 1-1 jafntefli á akademíuvellinum í Manchester.
Lestu um leikinn: Ítalía 1 - 1 Ísland
Íslenska liðið spilaði agaðan og vel skipulagaðan varnarleik. Liðið átti draumabyrjun er Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði glæsilegt mark eftir langt innkas frá Sveindísi.
Liðið gat gert út um leikinn eftir klukkutíma er Alexandra Jóhannsdóttir fékk boltann við mark ítalska liðsins en skot hennar fór framhjá. Ítalía jafnaði í næstu sókn.
„Við vildum auðvitað þrjú stig. Frammistaðan var fín, við vorum góðar í vörninni og skipulagðar. Þær fengu ekkert mörg færi, skoruðu úr eina góða færinu sem þær fengu. Nokkur skot fyrir utan teig og ekkert meira en það, en við áttum að nýta okkar færi betur sem við fengum undir lok leiks og ná í þessi þrjú stig. Það féll ekki með okkur í þetta skiptið og engin heppni með okkur hingað til. Vonandi gerum við betur í næsta leik.
„Þetta er ógeðslega pirrandi svona strax eftir leik. Þegar ég pæli í þessu þá er þetta svekkjandi. Við fengum ógeðslega góð færi til að klára leikinn og það hefði siglt þessum þremur stigum með okkur heim," sagði Sveindís.
Ítalska liðið reyndi að sækja til sigurs eftir jöfnunarmarkið, en það kom ekki. Liðin sættu sig við stigið, en nú er ekkert annað í stöðunni en að ná í þrjú stig gegn Frökkum.
„Þær lágu svolítið mikið á okkur og við beittum nokkrum skyndisóknum og gerðum það mjög vel. Við komumst í færi undir pressu og það er jákvætt að við séum að fá þessi færi og eigum að geta lokað leikjunum fyrr."
„Nei, það er ekkert annað. Eins og markmiðið hefur verið í öllum leikjunum að fá þessi þrjú stig. Það er eiginlega ekkert annað í stöðunni en þrjú stig og við gerum okkar besta að ná því," sagði Sveindís í lokin.
Athugasemdir