Tottenham búið að finna arftaka Son - Donnarumma vill fara til Man Utd - Greenwood til Inter?
   mán 04. ágúst 2025 15:00
Brynjar Ingi Erluson
Shearer ráðleggur Newcastle að selja Isak - „Komið honum í burtu héðan“
Alan Shearer heldur í vonina að Eddie Howe geti sannfært Isak, en ef ekki þá ætti félagið að selja hann sem fyrst
Alan Shearer heldur í vonina að Eddie Howe geti sannfært Isak, en ef ekki þá ætti félagið að selja hann sem fyrst
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Newcastle-goðsögnin Alan Shearer ráðleggur félaginu að selja Alexander Isak takist Eddie Howe ekki að tala hann til þegar þeir funda saman á morgun.

Shearer skoraði 148 deildarmörk á 10 árum sínum hjá Newcastle og er markahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Margir hafa komið og farið frá Newcastle síðan Shearer lagði skóna á hilluna og alltaf verið að finna mann til að raða inn mörkum til framtíðar. Stuðningsmenn voru vissir um að arftaki hans væri fundinn þegar Isak var keyptur frá Real Sociedad fyrir þremur árum.

Svíinn hefur raðað inn mörkum og er nú annar markahæsti leikmaður Newcastle í úrvalsdeildinni frá upphafi, en útlit er fyrir að þau verða ekki fleiri með félaginu.

Liverpool lagði fram 110 milljóna punda tilboð fyrir helgi sem Newcastle hafnaði, en Englandsmeistaranir munu koma með annað tilboð um leið og Newcastle finnur annan framherja í staðinn.

Hegðun Isak hefur verið gagnrýnd. Hann neitaði að fara með liðinu til Asíu og fór sjálfur til Spánar þar sem hann æfði einn á meðan viðræður Liverpool og Newcastle fóru fram.

Shearer segist samt ekki vera reiður út í Isak, en að Newcastle verði að koma honum í burtu sem allra fyrst.

„Ég er alls ekki reiður út í hann því ég veit hvernig fótbolti virkar og hvað gerist í þessum bransa. Ég held ég skilji líka hugarfar hans. Er ég hrifinn af því? Skil ég það? Það er tvennt ólíkt, en ég veit hvernig fótboltinn er og hvernig hann virkar. Það er alveg augljóst að Liverpool hefur legið á honum eða umboðsmanni hans.“

„Ég bjóst kannski við að þetta myndi gerast á næsta ári og ef það mun reynast ómögulegt fyrir Eddie að sannfæra hann og Isak segir bara nei, sem virðist vera svarið, þá vil ég hann strax burt. Þið fáið svakalega upphæð frá því félagi sem er reiðubúið að greiða hana og fáið síðan aðra leikmenn inn. Vonandi koma þeir leikmenn áður og síðan bara áfram gakk.“

„Eins og ég hef sagt þá er enginn leikmaður stærri en félagið og ef hann vill ekki vera þarna þá er það í fínu lagi. Reynið að fá sem mest fyrir hann, komið honum í burtu héðan og segið: „Takk kærlega fyrir minningarnar og bless“.“

Athugasemdir
banner
banner