sun 03.ágú 2025 12:00 Mynd: EPA |
|

Spáin fyrir enska: 11. sæti
Það styttist heldur betur í það að þjóðaríþrótt Íslendinga, enska úrvalsdeildin, fari aftur af stað. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.
Í ellefta sætinu eru sjálfir bikarmeistararnir í Crystal Palace.
Marc Guehi í leik með enska landsliðinu. Hann er fyrirliði Crystal Palace.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
???? OFFICIAL: UEFA announce Crystal Palace won’t be playing in the Europa League next season.
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) July 11, 2025
Palace to play in the Conference League per UEFA rules. pic.twitter.com/kuiGpiQVGq
Síðasta tímabil var virkilega jákvætt fyrir Palace. Þeir urðu ekki bara bikarmeistarar, þeir bættu líka stigametið sitt í ensku úrvalsdeildinni. Útlitið var ekki bjart í byrjun tímabils og var talað um að það ætti mögulega að reka Oliver Glasner, en hann náði heldur betur að reisa skútuna við. Í hjarta liðsins stendur miðjumaðurinn Eberechi Eze, sem stóð sig stórkostlega á síðasta tímabili með 14 mörk og 11 stoðsendingar en Palace ætlar sér að halda honum þrátt fyrir mikinn áhuga frá Arsenal. Crystal Palace er núna að fara að taka þátt í Evrópukeppni ásamt deild og bikar, en félagið væri örugglega til í að vera búið að bæta við sig fleiri leikmönnum en raun ber vitni. Einn bakvörður og varamarkvörður er kannski ekki alveg það sem stuðningsmenn höfðu gert sér vonir um. Það hlýtur að vera meira á leiðinni.
Það voru mikil vonbrigði fyrir Palace í sumar að félagið hafi verið fellt niður í Sambandsdeildina, en það eru líka tækifæri í því; að vinna Evróputitil er alltaf stórt og leikirnir verða þægilegri sem gefur aukna möguleika í deildinni heima fyrir. Palace er spáð um miðja deild eftir að hafa endað í tólfta sæti í fyrra en undir stjórn hins gáfaða Oliver Glasner, og með marga frábæra leikmenn innanbúðar, eru ýmsir vegir færir fyrir þetta sjarmerandi Lundúnafélag sem hefur verið í ensku úrvalsdeildinni í tólf ár samfleytt. Það eitt og sér er býsna mikið afrek en Palace vill meira en bara það að halda sér í deildinni, eins og sást á síðasta tímabili.
Stjórinn: Austurríkismaðurinn Oliver Glasner er á leið inn í sitt annað heila tímabil sem stjóri Crystal Palace. Glasner hefur haft djúpstæð áhrif á félagið frá því hann tók við stjórastarfinu í febrúar 2024. Hann kom inn með skemmtilega nálgun og mikla reynslu, einkum eftir að hafa stýrt Eintracht Frankfurt til sigurs í Evrópudeildinni árið 2022. Undir hans stjórn breyttist Palace úr frekar óstöðugu liði í skipulagt og taktískt agað lið sem vann sinn fyrsta stóra titil í sögu félagsins – FA bikarinn 2025. Hann hefur komið inn með skýran leikstíl, byggðan á öruggri vörn og hröðum skyndisóknum í sókn, sem hefur nýtt hæfileika lykilmanna á borð við Eberechi Eze til fulls. Á síðasta tímabili náði liðið metfjölda stiga í úrvalsdeildinni og spilaði áræðnari fótbolta en áður. Þrátt fyrir dramatíska útilokun úr Evrópudeildinni hefur Glasner haldið ró sinni og talað fyrir því að nota vonbrigðin sem hvatningu. Hann virðist staðráðinn í að gera Crystal Palace að liði sem ekki aðeins heldur sér í deildinni heldur keppir reglulega um Evrópusæti í framtíðinni.
Leikmannaglugginn: Eins og áður kemur fram hefur verið rólegt um að litast hjá Crystal Palace á leikmannamarkaðnum. Aðeins tveir leikmenn eru komnir og ekki er útlit fyrir það að þeir verði byrjunarliðsmenn. Það eru einhverjar sögusagnir um leikmenn úr Championship-deildinni en Palace hefur verið mjög sniðugt að sækja leikmenn þaðan síðustu ár.
Komnir:
Borna Sosa frá Ajax - 3 milljónir punda
Walter Benítez frá PSV - Á frjálsri sölu
Odsonne Edouard frá Leicester - Var á láni
Farnir:
Rob Holding til Colorado Rapids - Á frjálsri sölu
Jeffrey Schlupp til Norwich - Á frjálsri sölu
Joel Ward - Samningur rann út
Ben Chilwell til Chelsea - Var á láni
Matt Turner til Nottingham Forest - Var á láni
Líklegt byrjunarlið

Þrír lykilmenn:
Marc Guehi er fyrirliði Crystal Palace og hjartað í þriggja manna varnarlínu liðsins. Það eru þó háværar sögur um að Liverpool ætli að reyna að sækja hann og Guehi á bara eitt ár eftir af samningi sínum. Það yrði mikið högg fyrir Palace að missa þennan frábæra miðvörð sem er byrjunarliðsmaður í enska landsliðinu. Guehi er frábær í því að lesa leikinn og kemur boltanum yfirleitt mjög vel frá sér.
Daniel Munoz er bakvörður sem hefur einnig verið orðaður í burt frá Palace í sumar og það er ekki skrítið þar sem hann hefur síðustu árin spilað sem einn besti hægri bakvörður ensku úrvalsdeildarinnar. Munoz er gífurlega mikilvægur í leikstíl Palace þar sem það býr í honum rosalegur kraftur. Hann var bæði leikmaður ársins hjá liðsfélögum og stuðningsmönnum á síðasta tímabili.
Eberechi Eze er besti leikmaður Palace og þeirra mikilvægasti leikmaður. Í sóknarleiknum leitar Palace alltaf til Eze í leitinni að búa eitthvað til. Hann skoraði sigurmarkið í bikarúrslitaleiknum á síðasta tímabili og ef hann fer, þá fer hann ekki ódýrt. Arsenal hefur mikinn áhuga á honum en Palace vonast til að halda honum í sínum röðum.
Fylgist með: Það eru í raun fáir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni sem skemmtilegra er að horfa á en miðjumaðurinn Adam Wharton. Hann er að stíga fram sem sem einn efnilegasti miðjumaður enska fótboltans. Hann var keyptur frá Blackburn Rovers í janúar 2024 og vakti fljótt athygli með yfirvegun sinni á boltanum, leikskilningi og glæsilegu sendingasviði. Wharton spilar aðallega sem djúpur leikstjórnandi og gegnir mikilvægu hlutverki í að halda takti liðsins og tengja saman vörn og sókn. Undir stjórn Oliver Glasner hefur ábyrgð hans vaxið jafnt og þétt. Ef fram heldur sem horfir gæti Wharton orðið ómissandi í kerfi Glasners og einn af mikilvægustu leikmönnum Palace til framtíðar. Það er sjaldan sem maður sér svona ungan miðjumann sem er eins rólegur á boltann og það gerir hann að einstaklega skemmtilegum leikmanni til að fylgjast með á komandi keppnistímabili. Hann spilar með sokkana niðri og er ekkert eðlilega svalur á boltann.
Night everyone.
— HLTCO (@HLTCO) March 29, 2025
Adam Wharton is the present and the future.
pic.twitter.com/NAPQ1iUezB
Besta og versta mögulega niðurstaða: Besta niðurstaðan fyrir Palace er sú að liðið fylgi eftir síðasta tímabili, bæti stigamet sitt og færi sig í efri hluta deildarinnar. Ásamt því að vinna Sambandsdeildina auðvitað. Versta mögulega niðurstaðan er að Palace verði í neðri hlutanum, taki skref aftur á bak og falli snemma úr öllum keppnum. Það er lítill sem enginn möguleiki á því að Palace verði í einhverri fallbaráttu.
Þau sem spáðu: Anton Freyr Jónsson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Ívan Guðjón Baldursson, Kári Snorrason, Mate Dalmay, Snæbjört Pálsdóttir, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Crystal Palace, 98 stig
12. Everton, 97 stig
13. Fulham, 93 stig
14. West Ham, 92 stig
15. Bournemouth, 85 stig
16. Brentford, 79 stig
17. Leeds, 53 stig
18. Wolves, 50 stig
19. Sunderland, 33 stig
20. Burnley, 22 stig