sun 03. ágúst 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Everton leitar að kantmönnum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Everton er ennþá að bíða eftir kantmanninum öfluga Malick Fofana sem er á mála hjá Lyon.

Fofana þykir gríðarlega spennandi leikmaður en hann vill skipta til félags sem spilar í Meistaradeildinni.

Lyon hefur átt í fjárhagsvandræðum og er að reyna að selja leikmenn í sumar.

Fofana er tvítugur og var eftirsóttur af FC Bayern en Þýskalandsmeistararnir eru byrjaðir að skoða önnur skotmörk.

Chelsea og fleiri félög hafa einnig áhuga á Fofana en Lyon er talið vilja fá um 50 milljónir evra fyrir leikmanninn.

Fofana var næst markahæstur í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð og kom í heildina að 17 mörkum í 41 leik í öllum keppnum.

Hann á einn A-landsleik að baki fyrir Belgíu eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur upp yngri landsliðin.

Everton er einnig að skoða Tyler Dibling hjá Southampton, Assane Diao hjá Como og Takefusa Kubo hjá Real Sociedad.

Southampton og Como eru bæði búin að hafna tilboðum frá Everton í sumar. Como heimtar mjög háa upphæð fyrir Diao, eða 75 milljónir evra, á meðan Southampton vill 50 milljónir evra fyrir sinn leikmann.

Þá er talið ólíklegt að Sociedad sé reiðubúið til að selja Kubo fyrir minna heldur en riftunarákvæðið hans segir til um, eða 60 milljónir.

Everton er aðeins með tvo hreinræktaða kantmenn í leikmannahópinum sínum, þá Iliman Ndiaye og Dwight McNeil.

   27.07.2025 16:45
Fofana tefur viðræður við Everton - Vill spila í Meistaradeildinni

Athugasemdir
banner