Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
   mán 14. október 2024 11:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég segi það ekki sem faðir, heldur sem sérfræðingur"
Andri Lucas Guðjohnsen.
Andri Lucas Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Eiður Smári Guðjohnsen telur að sonur sinn, Andri Lucas, verði betri leikmaður en hann var sjálfur.

Andri Lucas er hluti af íslenska landsliðinu og spilar með Gent í Belgíu. Hann var keyptur þangað frá Lyngby í Danmörku í sumar. Andri spilaði nýverið og lagði upp gegn Chelsea í Sambandsdeildinni.

Eiður Smári er goðsögn hjá Chelsea eftir að hafa gert garðinn frægann þar sem leikmaður. Hann var í stúkunni á Stamford Bridge þegar Andri Lucas lagði upp mark þar.

„Ég gat ekki séð það að Andri yrði fótboltamaður þegar hann var yngri," segir Eiður í viðtali við The Mirror á Bretlandseyjum.

„Ég er ekki að vera neikvæður en hann var feitlaginn lítill strákur sem gekk um með boltann undir handleggnum. Það var bara þegar hann var sjö eða átta ár, sem ég sá glitta í það að hann gæti orðið fótboltamaður."

„Hann tók stór skref í akademíunni hjá Espanyol eftir að ég fór til Barcelona. Andri getur orðið frábær alhliða sóknarmaður. Ég var það aldrei þar sem ég þurfti alltaf að hafa einhvern fyrir framan mig. Andri þarf það ekki, hann er pjúra nía."

„Andri er sterkur í loftinu, miklu betri en pabbi sinn. Hann er teknískur og les leikinn vel. Hann er með allt í vopnabúrinu. Ég sé hann bara fara í eina átt og það er upp á við. Ég segi það ekki sem faðir, heldur sem sérfræðingur."

Eiður Smári væri til í að sjá Andra Lucas spila fyrir Chelsea einn daginn.

„Þetta er aðeins annað tímabilið þar sem hann spilar gegn karlmönnum. Í Svíþjóð kunni þjálfarinn af einhverri ástæðu ekki við hann en í Lyngby vissu þeir eftir þrjár æfingar að hann væri fullkominn sóknarmaður fyrir þá," sagði Eiður.

„Andri var bara fjögurra ára þegar hann gekk um Stamford Bridge eftir að við unnum titilinn 2006. Ég man þegar hann spilaði fótbolta með sonum Didier Drogba þegar við vorum að fagna titlinum. Það var frábært augnablik."

Andri Lucas verður í eldlínunni í kvöld þegar Ísland mætir Tyrklandi í Þjóðadeildinni.
Athugasemdir
banner
banner