Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 14. desember 2022 16:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Brynjar: Kom að sjálfsögðu á óvart þegar þeir fóru að tala um þetta
Brynjar Björn Gunnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á æfingasvæðinu hjá Örgryte.
Á æfingasvæðinu hjá Örgryte.
Mynd: Guðmundur Svansson
'Þó það verði ekki framhald þá get ég ekki verið annað en sáttur með það sem ég gerði'
'Þó það verði ekki framhald þá get ég ekki verið annað en sáttur með það sem ég gerði'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK tryggði sér sæti í Bestu deildinni á nýjan leik í sumar.
HK tryggði sér sæti í Bestu deildinni á nýjan leik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Náði að stýra Örgryte frá falli.
Náði að stýra Örgryte frá falli.
Mynd: Guðmundur Svansson
'Það er gott að koma heim, fara í heita pottinn og hlaða batteríin'
'Það er gott að koma heim, fara í heita pottinn og hlaða batteríin'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líður vel eftir þetta allt saman. Þó það verði ekki framhald þá get ég ekki verið annað en sáttur með það sem ég gerði," segir þjálfarinn Brynjar Björn Gunnarsson í samtali við Fótbolta.net í dag.

Brynjar Björn, sem er fyrrum landsliðsmaður, hætti með HK í maí síðastliðnum til að taka við Örgryte, félagi sem hann spilaði fyrir sem leikmaður.

Liðið var á botni sænsku B-deildarinnar þegar hann tók við en hann skilaði liðinu upp í 13. sæti. Liðið fór því í umspil um að halda sæti sínu en þar tókst Örgryte að halda sæti sínu með því að vinna tveggja leikja einvígi gegn Sandviken.

„Ég kom inn á erfiðum tímapunkti og breytti gengi liðsins. Þetta gerðist mjög hratt fyrir sig á sínum tíma, en það gekk vel að komast inn í hlutina hjá félaginu. Það voru þrír leikir strax í byrjun en svo var smá sumarfrí þar sem við fengum tíma til að vinna með liðinu, æfa í 2-3 vikur áður en deildin byrjaði aftur."

„Við vorum á botninum þegar ég tók við. Það var lítið sjálfstraust í liðinu, einhverra hluta vegna. Það var sérstakt að koma inn í þessa stöðu á miðju tímabili, en ég gerði það sem ég er vanur að gera og segja. Það gekk upp. Miðað við stig og aðra tölfræði þá vorum við eitt af fjórum, fimm bestu liðum deildarinnar eftir sumarfrí."

Kom mér að sjálfsögðu á óvart
Brynjar viðurkennir að umræðan innan félagsins eftir að tímabilinu lauk hafi komið sér á óvart. Árangurinn var góður eftir að hann tók við og var hann á einum tímapunkti útnefndur þjálfari mánaðarins í Svíþjóð.

„Þetta kom mér að sjálfsögðu á óvart þegar við settumst niður og þeir fóru að tala um þetta," segir Brynjar og bætir við: „Þeir gáfu enga sérstaka ástæðu beint."

Nýr þjálfari Örgryte er Jeffrey Aubynn, sem spilaði með Örgryte frá 2001 til 2003. Hann lék einnig með sænska landsliðinu Hann var áður aðstoðarþjálfari stórliðsins Malmö.

„Nýi þjálfarinn er Svíi, fyrrum leikmaður liðsins, hann spilaði eitthvað smá með landsliðinu og hefur starfað fyrir Malmö. Hann er stærri prófíll í Svíþjóð."

Brynjar ætlaði sér fyrst að vera áfram - það var planið - en eftir samtöl við stjórn félagsins eftir tímabil þá kom það í ljós að það væri líklega best að leiðir myndu skilja.

„Planið mitt fyrst var að vera áfram. En þegar umræðan var komin út í þetta, og þegar við vorum að spjalla um hvað þyrfti að breytast, hvaða leikmenn þyrfti að fá og hvernig þjálfarateymið ætti að vera... það þurfti mikla vinnu til að fara í það sem ég hefði mögulega viljað hafa. Við urðum sammála um það að best væri að fara í sitthvora áttina. Ég gat stigið stoltur frá því sem við gerðum, sem var að bjarga liðinu frá falli. Sumarið var stórskemmtilegt."

Staðan var ekkert sérlega góð þegar Brynjar kom inn. „Það var enginn yfirmaður fótboltamála. Hann var rekinn áður en ég kem. Svo er aðalþjálfarinn látinn fara og hann var með tvo eða þrjá aðstoðarmenn með sér. Það verður einn af þeim aðstoðarþjálfurunum eftir. Þegar ég kem inn í þetta er starfsmönnum í kringum liðið búið að fækka. Það var þannig áfram. Við vorum þrír til fjórir í kringum liðið."

„Svo eru einhver innanhúss mál hjá félaginu; framkvæmdastjórinn hættir og það var ráðinn framkvæmdastjóri tímabundið. Samtal um það sem átti að gerast í framtíðinni, það var ekki á ábyrgð neins. Á sama tíma vorum við að berjast fyrir því að fá mikilvæg stig. Það var ekki á neinum tímapunkti yfir tímabilið þar sem við settumst niður til að ræða framtíðina. Við vorum alltaf að bíða eftir því að tryggja sætið í deildinni sem gerðist bara í blálokin. Hvað var að gerast á bak við tjöldin, það veit ég ekkert um."

„Það fer einhver atburðarás af stað. Malmö skiptir um þjálfara og þjálfarateymi. Þetta er stærri deild og stærra land. Það eru fleiri sem koma að málinu. Það voru einhverjir sem voru á þeirri skoðun að það yrði betra að fá hann (Aubynn) inn. Ég hef ekki skoðun á því, þetta er bara ákvörðun sem þeir taka. Ég lít bara á það sem ég gerði. Ég gerði allt mitt og rúmlega það."

Þeir sem ráða hjá félagin voru með öðruvísi hugmyndir en Brynjar. „Félagið lítur á þetta sem meiri langtímalausn. Ég verð að virða það. Þeir eru að gera sitt besta fyrir félagið. Ég gerði mitt allra besta. Markmiðið var að halda liðinu uppi. Þeir voru með tvö stig eftir sjö leiki. Við vorum neðstir enn eftir tíu leiki. Ég held að lið hafi ekki nokkurn tímann bjargaði sér frá falli eftir að hafa verið neðst eftir tíu leiki. Þú getur alltaf tekið smá sigra hér og þar."

Ég er bara rólegur
Brynjar segir að reynslan í Svíþjóð hafi verið mjög góð og hann hafi lært margt. Umhverfið er allt öðruvísi en hér á Íslandi.

„Þetta var frábær reynsla, mjög góð. Maður mætir alls konar þjálfurum, alls konar aðferðum, allskonar leikkerfum. Þú ert í stóru landi þó Skandínavía sé ekki langt að heiman. Þú ert kominn í stærra umhverfi og það eru öðruvísi kröfur og öðruvísi pressa."

„Ég hef alveg áhuga á að þjálfa áfram erlendis, alveg klárlega. En akkúrat núna er ég bara fríi. Ég ætla bara að sjá hvað gerist næstu vikur og mánuði. Það er ekkert stress. Þetta er tímapunktur hér heima og í Skandinavíu þar sem flest félög eru búin að plana fyrir næsta ár. Ég er bara rólegur. Ef eitthvað tækifæri kemur upp - hvað sem það er - þá bara skoða ég það í rólegheitum og met stöðuna eftir því," segir Brynjar.

Það var umræða um það fyrir nokkrum vikum síðan að HK væri mögulega að leita að þjálfara til þess að þjálfa liðið með Ómari Inga Guðmundssyni á næstu leiktíð. Brynjar var spurður hvort hann myndi skoða ef það stæði honum til boða.

„Já og nei. Mér þykir vænt um HK og alla þar. Ég átti gríðarlega góð ár þar. Ég bara veit það ekki. HK er búið að ráða Ómar og ákveða að Ómar sé aðalþjálfari. Þau setja sitt traust á það. Ómar fær þá vinnufrið að gera hlutina eins og hann vill gera það."

Hann segist hafa verið gríðarlega ánægður að sjá HK fara upp úr Lengjudeildinni síðastliðið sumar.

„Það var frábært fyrir mig að sjá það, ég var gríðarlega ánægður fyrir hönd Ómars, fyrir hönd leikmannana og allra í félaginu. Ég fer þegar mótið er rétt byrjað og mér fannst það mjög erfitt. Við vorum búnir að leggja miklu vinnu í að halda leikmönnum hjá félaginu til að taka slaginn í Lengjudeildinni. Ég er gríðarlega ánægður og að einhverju leyti smá feginn að þeir tryggðu sér sætið í Bestu deildinni á þessu ári."

„Þetta var langt tímabil; heilt undirbúningstímabil hér á Íslandi og svo fer ég beint út til Örgyte í tímabil sem teygist inn í miðjan nóvember. Þetta eru tólf mánuðir á fullri ferð. Það er gott að koma heim, fara í heita pottinn og hlaða batteríin. Þetta fer á ferilskrána. Reynslan var mjög góð, að koma inn í þetta umhverfi undir þessum kringumstæðum. Maður er betur undirbúinn fyrir næsta verkefni, hvar sem það verður," segir Brynjar Björn að lokum.
Athugasemdir
banner