Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 15. febrúar 2021 12:50
Elvar Geir Magnússon
Nagelsmann: Liverpool aðeins sigurstranglegra
Julian Nagelsmann.
Julian Nagelsmann.
Mynd: Getty Images
Heimaleikur þýska liðsins RB Leipzig gegn Liverpool í Meistaradeildinni annað kvöld verður leikinn í Búdapest í Ungverjalandi. Þetta er fyrri viðureign liðanna.

Julian Nagelsmann, stjóri Leipzig, segir að Liverpool sé aðeins sigurstranglegra fyrir einvígið.

Liverpool er á slæmu skriði og hefur tapað þremur leikjum í röð en Leipzig, sem komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, hefur unnið fjóra síðustu leiki í öllum keppnum og aðeins fengið eitt mark á sig.

„Það hefur verið gott flæði í okkar liði. Við höfum unnið fjóra leiki í röð á meðan Liverpool er án sigurs í fimm leikjum af sjö. Þeir eru samt örlítið sigurstranglegri vegna reynslunnar sem er í liðinu," segir Nagelsmann.

„Við höfum hinsvegar sýnt að við getum staðið okkur gegn svona liðum, bæði á síðasta tímabili og í erfiðum riðli núna. Við höfum án nokkurs vafa þróast sem lið."

Nagelsmann segir að Liverpool geti orðið enn hættulegra í ljósi þess að Jurgen Klopp hefur lýst yfir ósigri í baráttunni við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn.

„Þetta mun mikið ráðast á dagsforminu. Við erum algjörlega meðvitaðir um að Liverpool er enn frábært lið með heimsklassa leikmenn. Það er alltaf erfitt að verjast gegn þeim."

Síðar í dag mun Jurgen Klopp sitja fyrir svörum á fréttamannafundi fyrir leikinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner