Í byrjun vikunnar var tilkynnt að Gunnar Jónas Hauksson væri mættur aftur í Vestra eftir að hafa spilað með Gróttu undanfarin tímabil. Gunnar kom í Gróttu frá Kríu eftir tímabilið 2018. Hann er uppalinn hjá BÍ og KR.
Seinni hluta tímabilsins 2019 var Gunnar á láni hjá Vestra og sömuleiðis seinni hluta tímabilsins 2020. Á síðustu árum hefur hann talsvert glímt við meiðsli en er að ná sé að fullu. Gunnar, sem fæddur er árið 1999, ræddi við Fótbolta.net um skiptin vestur.
Seinni hluta tímabilsins 2019 var Gunnar á láni hjá Vestra og sömuleiðis seinni hluta tímabilsins 2020. Á síðustu árum hefur hann talsvert glímt við meiðsli en er að ná sé að fullu. Gunnar, sem fæddur er árið 1999, ræddi við Fótbolta.net um skiptin vestur.
„Eftir að ég varð samningslaus hjá Gróttu í desember þá fór ég aðeins á stúfana og heyrði hljóðið í þeim fyrir vestan. Ég hef verið að glíma við töluverð meiðsli síðustu tvö tímabil en er búinn að vera að vinna í þeim núna. Mér fannst vera kominn tími á að breyta aðeins um og prófa eitthvað nýtt. Ég er búinn að vera í Gróttu síðan 2018 en fór á lán til vestra 2019 og 2020. Ég hef einungis átt góða tíma í fótbolta hér á Ísafirði," sagði Gunnar.
Var strax ljóst eftir síðasta tímabil að þú yrðir ekki áfram hjá Gróttu?
„Nei, það var alls ekkert ljóst. Við Chris [Brazell, þjálfari Gróttu] settum upp góða sviðsmynd eftir aðgerðina mína og planið var að ég myndi vera byrjaður að æfa á fullu með þeim í mars. Ég var samt ennþá samningslaus og mig langaði að sjá hvað væri í boði sem leiddi mig vestur."
Gunnar hefur rifið liðþófann þrisvar sinnum á síðustu tveimur árum og hefur hann alltaf þurft að fara í aðgerð. En hvernig leikmaður er Gunnar, hver er hans besta staða?
„Ég get leyst margar stöður og hef spilað flest allar stöður nema miðvörð og striker, en myndi segja að mín besta staða væri hægri bakvörður eða vængbakvörður."
Í tilkynningu Vestra var hann kynntur sem Vigurbolinn. Hvað þýðir það?
„Ég er sem sagt ættaður úr Vigur sem er eyja í Ísafjarðardjúpi. Ég kíkti þangað alltaf í heimsókn á hverju sumri þangað til að eyjan fagra var seld árið 2019. Þetta er eitthvað sem að Sammi [formaður Vestra] hefur líklega skrifað og ég hafði mjög gaman að því."
„Ég fæddist hér á Ísafirði og eru foreldrar mínir báðir héðan. Einnig á ég ömmu og afa hér fyrir vestan og mun ég búa hjá þeim í sumar."
Gunnar er með nafnið Guzcut á samfélagsmiðlum þar sem hann er rakari. Hann er ekki kominn með stól fyrir vestan til að taka á móti viðskiptavinum en er að vinna í því.
„Ég er að vinna í því að fá stól hérna á Ísafirði til að klippa. Það kemur í ljós á hvaða stofu ég verð á en það er allt í vinnslu."
Eru einhverjir fastakúnnar fyrir sunnan orðnir örvæntingafullir?
„Fastakúnnarnir mínir í Reykjavík eru orðnir verulega örvæntingafullir yfir sumrinu en ég mun koma þeim vel fyrir hjá mínum mönnum á Studio220. Þeir þurfa bara að lifa með því þangað til ég kem aftur. Mögulega mun ég opna fyrir nokkra daga fyrir sunnan þegar ég verð í bænum," sagði Gunnar að lokum.
Athugasemdir