Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   mán 15. júlí 2024 14:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Valsmenn ætla að vinna þetta á vellinum, láta svo aðra um að meta hitt"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Skjáskot/Valur
Valur mætir albanska liðinu Vllaznia í Albaníu á fimmtudag. Um seinni leik liðanna er að ræða í forkeppni Sambandsdeildarinnar en fyrri leiknum, sem fram fór á N1 vellinum síðasta fimmtudag, lauk með dramatísku jafntefli. Það muna kannski færri eftir því að leikurinn fór 2-2 en því sem gekk á í stúkunni og Valsheimilinu það kvöldið.

Stuðningsmenn gestaliðsins voru langt frá öskuillir; dómari leiksins fékk flösku í sig, hrækt var á dómarana þegar þeir gengu til búningsherbergja og einn var sleginn í höfuðið. Þá fékk einn í gæslunni högg í andlitið frá stuðningsmanni albanska liðsins.

Inni í heiðursstúkunni fengu svo stjórnarmenn Vals líflátshótanir frá stjórnarmönnum gestaliðsins.

Valsmenn vildu að seinni leikur liðanna yrði færður af heimavelli albanska liðsins, en það verður ekki gert. Málið er enn í meðferð hjá evrópska fótboltasambandinu og UEFA hefur lofað að öryggi Valsmanna verði tryggt í Albaníu. Málið er á borði Interpol þar sem um er að ræða alþjóðlegan viðburð.

„UEFA lítur málið alvarlegum augum og okkar skilningur er sá að UEFA mun tryggja öryggi Vals. Síðan er þetta mál bara í ferli hjá UEFA. Valur verður að mæta í leikinn og trúa því að UEFA tryggi öryggi þeirra á leikstað," sagði Jörundur Áki Sveinsson, starfandi framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Vísi í dag.

Fótbolti.net ræddi einnig við Jörund í dag.

„Við getum ekki tekið fram fyrir hendurnar á UEFA í þessu máli, þetta er UEFA keppni og þeir bera ábyrgð á þessu. Þeir meta þetta svona með sínum sérfræðingum í öryggismálum. Þetta er erfið staða en engu að síður verðum við að treysta því að UEFA tryggi öryggi Vals í þessu verkefni. Ég hef fullan skilning á því að Valur hafi áhyggjur af þessari stöðu, en á fundinum kom skýrt fram að öryggi Vals verði tryggt," segir Jörundur sem var ánægður með Valsmenn en fulltrúar KSÍ, Vals og UEFA sátu fund í morgun.

„Þeir voru alveg skýrir með sína afstöðu til málsins og létu hana í ljós. Mér fannst þeir koma sínum skilaboðum vel á framfæri. Þetta er lítið alvarlegum augum innan UEFA, svona framkoma á ekki að líðast. Það kemur svo í ljós hvort það verði sektir eða slíkt, það mun örugglega ekki nást fyrir leikinn á fimmtudag."

Þrátt fyrir líflátshótanir þá ætla stjórnarmenn Vals að fara með liðinu út.

„Þeir eru að fara með liðinu, ætla aðstoða við það verkefni að vinna leikinn. Þeir þurfa að stjórna því sem þeir geta stjórnað og láta UEFA um hitt. Valsmenn ætla að vinna þetta á vellinum, láta svo aðra um að meta hitt," segir Jörundur.

Ekki er búist við því að einhverjir stuðningsmenn Vals fari til Albaníu. Leikurinn fer fram á fimmtudag og hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma.

Ef Valur slær út Vllaznia mun liðið mæta skoska liðinu St. Mirren í 2. umferð forkeppninnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner