„Já, leikurinn sem allir eru búnir að bíða eftir. Ég held að þetta verði mjög skemmtilegur og spennandi leikur," segir Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net.
Framundan á morgun er bikarúrslitaleikur Vals og Breiðabliks, tveggja bestu liða landsins.
Framundan á morgun er bikarúrslitaleikur Vals og Breiðabliks, tveggja bestu liða landsins.
„Þetta eru bestu lið landsins í dag. Ég held að þetta geti ekki klikkað," segir Ásta en þessi tvö lið hafa mæst tvisvar í sumar og skipt með sér sigrunum. Valur er á toppi Bestu deildarinnar með einu stigi meira en Breiðablik.
„Ég myndi ekki segja að það væri mikill munur á liðunum. Bæði lið eru með sína kosti og galla kannski, og það eru mikil gæði innanborðs í báðum liðum. Þetta eru tvö lið sem eru mjög hungruð og vilja vinna."
Ásta hefur misst af síðustu tveimur bikarúrslitaleikjum Breiðabliks vegna meiðsla. Hún missti af síðasta leik gegn Þór/KA og er tæp fyrir þennan leik.
„Staðan er fín en þetta verður bara að koma í ljós. Ég er búinn að missa af síðustu tveimur bikarúrslitaleikjum. Það eru einhver bikarálög yfir mér. Nei, þetta er 50/50 og við sjáum til. Ég vona bara það besta," sagði Ásta en Blikaliðið er á góðum stað þessa stundina eftir sterkan sigur gegn Þór/KA í síðasta leik.
Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir