Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   þri 16. apríl 2024 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Xavi brjálaður: Ömurlegur dómari sem skilur ekki leikinn
Xavi er búinn að segjast ætla að hætta með Barcelona eftir tímabilið.
Xavi er búinn að segjast ætla að hætta með Barcelona eftir tímabilið.
Mynd: EPA
Xavi Hernández, þjálfari Barcelona, var bálreiður eftir 1-4 tap á heimavelli gegn Paris Saint-Germain í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Barca vann fyrri leikinn í París og tók forystuna á heimavelli en hlutirnir breyttust þegar Ronald Araújo fékk að líta beint rautt spjald fyrir klaufalegt brot sem aftasti varnarmaður á 29. mínútu. Snertingin var ekki mikil en hún var vissulega til staðar og dæmdi dómarinn því brot.

Tíu Börsungar réðu ekki við PSG og enduðu á að steinliggja á eigin heimavelli. Xavi fékk sjálfur að líta beint rautt spjald frá dómaranum þegar hann missti stjórn á skapinu og rústaði varnarvegg fyrir myndavél sem tók leikinn upp frá hliðarlínunni - eins og má sjá hér fyrir neðan.

Sjáðu reiðiskastið hjá Xavi

Xavi svaraði spurningum að leikslokum og kenndi dómaranum um að eyðileggja leikinn.

„Við erum ósáttir. Að mínu mati þá gerði rauða spjaldið hans Araujo útslagið í kvöld. Fram að þeirri stundu vorum við vel skipulagðir og að eiga góðan leik, en þetta atvik breytti öllum leiknum. Allt sem við höfum unnið að á þessu tímabili var eyðilagt með einni dómaraákvörðun," sagði Xavi.

„Ég sagði við dómarann að þessi frammistaða hans væri til skammar, hún var ömurleg. Hann skilur ekki leikinn."

Rúmenski dómarinn István Kovács var á flautunni í kvöld.

Barcelona er núna úr leik í öllum keppnum nema spænsku deildinni, þar sem liðið er þó átta stigum á eftir toppliði Real Madrid þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

Börsungar fá þó gullið tækifæri til að setja spennu í titilbaráttuna þegar liðið heimsækir Real Madrid á Santiago Bernabeu næsta sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner