Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 16. júní 2022 22:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Besta deildin: Heimir og Valur með mjög gott svar
Patrik Pedersen skoraði sigurmarkið.
Patrik Pedersen skoraði sigurmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta eru fyrstu stigin sem Blikar tapa í sumar.
Þetta eru fyrstu stigin sem Blikar tapa í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 3 - 2 Breiðablik
1-0 Aron Jóhannsson ('35 )
2-0 Orri Hrafn Kjartansson ('45 )
2-1 Dagur Dan Þórhallsson ('63 )
2-2 Anton Logi Lúðvíksson ('84 )
3-2 Patrick Pedersen ('94 )
Lestu um leikinn

Í landsleikjahléinu hefur verið mikil umræða um það hvort Valur eigi ekki að skipta um þjálfara í ljósi á slökum árangri síðustu vikur.

En Valur ákvað að halda sig við Heimi Guðjónsson og gefa honum traustið áfram. Hann þakkaði það traust gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í kvöld. Þegar þessi lið mættust í Mjólkurbikarnum á dögunum vann Breiðablik 6-2 sigur, en leikurinn í kvöld var aðeins öðruvísi.

Breiðablik hafði unnið alla sína leiki í deildinni fyrir leikinn í kvöld, en Valur hafði tapað fjórum í röð. Blikar voru án Ísaks Snæs Þorvaldssonar, sem hefur verið besti leikmaður Íslandsmótsins, í kvöld þar sem hann var í leikbanni og hafði það sitt að segja.

Valsmenn voru þéttir fyrir og nýttu tækifærin til að sækja í fyrri hálfleik. Þeir komust yfir á 35. mínútu þegar Aron Jóhannsson nýtti sér það að Anton Ari Einarsson var langt út úr marki sínu. Hann skoraði af löngu færi og kom heimamönnum í forystu.

Fyrir leikhlé komst Valur í 2-0 þegar Arnór Smárason átti gullsendingu á Orra Hrafn Kjartansson.

„Gjörsamlega tufluð sending í gegn frá Arnóri á vinstri kantinum yfir á Orra Hrafn á hinum kantinum. Orri vinnur kapphlaupið við Davíð Ingvars, er sloppinn einn í gegn og klárar framhjá Antoni Ara með þrumu skoti,” skrifaði Sæbjörn Þór Steinke í beinni textalýsingu þegar Valur gerði sitt annað mark.

Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Valsmenn og var það nokkuð óvænt.

Óskar Hrafn Þorvaldsson fór hins vegar vel yfir málin í hálfleik með sínum mönnum. Það tók þá smá tíma að finna markið, en það kom loksins á 63. mínútu þegar Dagur Dan Þórhallsson skoraði eftir fasta fyrirgjöf frá Höskuldi Gunnlaugssyni.

Blikar héldu áfram að pressa og það skilaði sér í jöfnunarmarki 20 mínútum síðar. „Jason Daði með fallega fyrirgjöf inná markteig Vals þar sem Anton Logi mætir, milli Heiðars og Rasmus, og stangar boltann í netið,” skrifaði Sæbjörn þegar Anton Logi Lúðvíksson jafnaði metin.

Það voru enn sex mínútur og uppbótartími eftir fyrir sigurmark og það kom. Það voru ekki Blikar sem gerðu það, heldur Valsmenn. Varamennirnir Sigurður Egill Lárusson og Patrick Pedersen unnu saman og skilaði danski sóknarmaðurinn boltanum í netið. Gríðarleg dramatík en sigur Vals staðreynd í mögnuðum leik.

Lokatölur 3-2 og eru þetta fyrstu stigin sem Blikar tapa í sumar. Breiðablik er á toppnum með 24 stig og er Valur með 16 stig í fimmta sæti.
Athugasemdir
banner