Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   sun 16. júní 2024 18:08
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Þægilegt fyrir Val - Jafnt á Sauðárkróki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Tveimur síðustu leikjum dagsins var að ljúka í Bestu deild kvenna, þar sem Valur vann þægilegan sigur á útivelli gegn Fylki á meðan Tindastóll og Víkingur R. skildu jöfn.

Lestu um leikinn: Fylkir 1 -  4 Valur

Í Árbænum sýndi Valur mikla yfirburði til að vinna 1-4 sigur gegn Fylki, en staðan var 0-1 í leikhlé eftir að Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði á elleftu mínútu.

Valskonur voru óheppnar að tvöfalda ekki forystuna fyrir leikhlé en það kom ekki að sök því Amanda Jacobsen Andradóttir skoraði í upphafi síðari hálfleiks eftir slakan varnarleik Fylkis.

Jasmín Erla Ingadóttir setti þriðja markið á 62. mínútu og gerði þar með út um viðureignina.

Fylkir minnkaði muninn á lokakaflanum með marki frá Abigail Boyan úr vítaspyrnu en Berglind Rós Ágústsdóttir svaraði því með fjórða marki Vals, þegar hún skoraði með flottu skoti utan vítateigs.

Valur er áfram í öðru sæti Bestu deildarinnar, með 21 stig eftir 8 umferðir - þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks sem er með fullt hús stiga.

Fylkir 1 - 4 Valur
0-1 Ísabella Sara Tryggvadóttir ('11)
0-2 Amanda Jacobsen Andradóttir ('53)
0-3 Jasmín Erla Ingadóttir ('62)
1-3 Abigail Patricia Boyan ('82, víti)
1-4 Berglind Rós Ágústsdóttir ('88)

Staðan var þá markalaus í hálfleik á Sauðárkróki þar sem Tindastóll tók á móti Víkingi R.

Lestu um leikinn: Tindastóll 1 - 1 Víkingur R.

Þó að ekkert mark hafi litið dagsins ljós var fyrri hálfleikurinn nokkuð fjörugur. Bæði lið áttu góðar marktilraunir og hæfðu Víkingar slána í tvígang en inn vildi boltinn ekki.

Í síðari hálfleik tók Hafdís Bára Höskuldsdóttir forystuna fyrir Víking með skalla eftir góða fyrirgjöf, en varnarleikur Tindastóls var ekki til fyrirmyndar.

Stólarnir voru sterkari aðilinn þegar tók að líða á seinni hálfleik og komust afar nálægt því að jafna metin í tvígang áður en það hafðist að lokum, þegar Emma Steinsen Jónsdóttir varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir þunga sókn Stólanna.

Víkingar brugðust við með að blása til sóknar og komust mjög nálægt því að gera sigurmark á lokamínútunum, en það tókst ekki. Stólarnir fengu einnig hættulegt færi í uppbótartíma en lokatölur urðu 1-1 eftir fjörugan slag á Sauðárkróki.

Tindastóll 1 - 1 Víkingur R.
0-1 Hafdís Bára Höskuldsdóttir ('52)
1-1 Emma Steinsen Jónsdóttir ('84 , sjálfsmark)
Athugasemdir
banner
banner
banner