Stefán Teitur Þórðarson er genginn í raðir enska félagsins Preston. Hann ræddi við Fótbolta.net í dag og var hann í lok viðtalsins spurður út í praktísk atriði þegar kemur að flutningum frá Danmörku til Englands.
Preston er í vesturhluta Englands, á milli Blackpoo og Blackburn fyrir þá sem eru kunnugir staðháttum. Stefán er í íbúðarleit sem stendur.
„Það er í vinnslu. Ég er sem stendur á hóteli í Preston en er á fullu að reyna finna íbúð og bíl og græja allt sem tengist því að komast inn í landið. Bretinn er ekkert að gera þetta auðvelt fyrir mann."
„Það var svo sem ekkert mál fyrir mig að fá vegabréfsáritun, gat fengið flýtimeðferð. Það er meira vesen fyrir kærustuna. Maður þarf að skrá sig inn í fullt af hlutum þegar maður flytur hingað, smá stúss."
Við komuna til Englands, fer maður á eitthvað námskeið til að venjast því að keyra öfugu megin miðað við nánast alls staðar annars staðar?
„Nei, ég hef ekki heyrt um það. Maður verður bara að læra hratt. Það eina sem þeir segja er að tryggingarnar verði bara hærri hjá þér. Þú ert spurður hvort þú hafir keyrt áður í Bretlandi."
„Ef ég get ekki keyrt hérna þá veit ég ekki hvort ég fæ að fara aftur upp á ÞÞÞ einhver daginn," sagði Stefán léttur.
Fjölskyldufyrirtækið, Bifreiðastöð ÞÞÞ, er eitt elsta fyrirtæki Akraness
Athugasemdir