Atletico íhugar að gera tilboð í Garnacho - Man Utd langt komið í viðræðum við Diallo - Dybala má fara ef hann er ósáttur
   þri 16. júlí 2024 23:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Stefán Teitur: Fólkinu á fjölmiðladeildinni fannst þetta ótrúlegt
Stefán verður 26 ára í október. Hann er uppalinn hjá ÍA og á að baki 20 landsleiki.
Stefán verður 26 ára í október. Hann er uppalinn hjá ÍA og á að baki 20 landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Um leið og ég heyrði af svona miklum áhuga frá Preston þá lét ég mína umboðsmenn vita að það væri það sem ég vildi'
'Um leið og ég heyrði af svona miklum áhuga frá Preston þá lét ég mína umboðsmenn vita að það væri það sem ég vildi'
Mynd: Preston
'Það var allt mjög rólegt hjá mér og eini aðilinn sem ég var að tala við á þessum tíma var Preston'
'Það var allt mjög rólegt hjá mér og eini aðilinn sem ég var að tala við á þessum tíma var Preston'
Mynd: Preston
Stefán komst hvað næst því að skora gegn Hollandi þegar hann átti skot í stöng.
Stefán komst hvað næst því að skora gegn Hollandi þegar hann átti skot í stöng.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta var bara geðveikt'
'Þetta var bara geðveikt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán varð bikarmeistari með Silkeborg í vor og var valinn besti maður úrslitaleiksins.
Stefán varð bikarmeistari með Silkeborg í vor og var valinn besti maður úrslitaleiksins.
Mynd: Arnór Sigurðsson
Þórður Guðjónsson með kött.
Þórður Guðjónsson með kött.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Gunnlaugsson lék með Preston.
Bjarki Gunnlaugsson lék með Preston.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Stefán Teitur Þórðarson var fyrr í þessum mánuði keyptur til enska félagsins Preston frá danska félaginu Silkeborg. Stefán var búinn að vera hjá Silkeborg í fjögur ár og átti hálft ár eftir af samingi sínum við félagið.

Hann vonaðist eftir því að að taka skrefið annað í sumar og var mikill áhugi á honum. Lendinginn varð Championship deildin á Englandi. Fótbolti.net ræddi við Skagamanninn í dag.

„Mér líst frábærlega á að vera orðinn leikmaður Preston, er mjög spenntur fyrir öllu og það er búið að taka mjög vel á móti manni; stuðningsmenn, fólk í kringum klúbbinn og leikmenn. Þetta er mjög góður hópur að koma inn í, allir tilbúnir að hjálpa og gera allt fyrir mann."

„Ég heyrði af áhuga frá þeim fyrir nokkrum vikum. Það voru viðræður fram og til baka milli félaganna í einhvern tíma og loksins fannst niðurstaða sem bæði félög gátu sætt sig við."


Vissi að það yrði mikill áhugi
Stefán sagði í viðtali við Fótbolta.net í vor að hann vonaðist eftir því að það kæmu tilboð í sig í sumar.

„Ég og Silkeborg vissum eftir þetta góða tímabil og stutt eftir af samningnum að það myndi líklegast vera mikill áhugi á mér í sumar. Ég settist niður með þjálfaranum og sagði hvað ég væri að hugsa. Silkeborg kom sínum skoðunum í ljós. Svo þróaðist þetta bara þegar það kom tilboð."

Engin dramatík
Talandi um tilboð, það leit út fyrir að vera barátta á milli þriggja félaga á endasprettinum því Stefán var fyrst sagður á leið til QPR og Derby var einnig orðað við miðjumanninn. Svo kom í ljós að Preston hafði náð samkomulagi við Silkeborg um kaup á Stefáni.

„Eina sem ég get sagt er að það var alls ekkert 'transfer drama' eins og einhverjir hafa talað um. Það var allt mjög rólegt hjá mér og eini aðilinn sem ég var að tala við á þessum tíma var Preston."

Veistu af hverju menn héldu að þú værir að fara til QPR, var eitthvað sem gaf það til kynna?

„Ekki frá minni hlið. Ég veit að það var áhugi frá fleiri félögum í Championship eins og áður hefur komið fram, en ég held það hafi ekkert komið neitt inn á borð hjá Silkeborg."

Vilja berjast um sæti í umspilinu
Preston er nokkuð rótgróið félag í Championship deildinni, verið þar síðan liðið frá árinu 2015.

„Það sem menn vilja gera núna er að fá inn leikmenn til að gera atlögu að sæti í umspilinu á komandi tímabili. Preston endaði í 10. sæti á síðasta tímabili eftir að hafa spilað mjög vel fyrri hlutann, en það fór eitthvað úrskeiðis seinni hlutann sem varð til þess að liðið missti af lestinni í baráttunni um umspilssæti."

Algjör draumur
Hvernig líður Stefáni að vera kominn til mesta fótboltalandsins í heiminum?

„Frábærlega. Ég er mjög stoltur af því og mjög glaður. Mér hefur liðið mjög vel eftir að hafa skrifað undir og allur kúltúrinn í kringum leikmennina, og starfsfólkið, þetta er allt í hæsta gæðaflokki. Mig hefur alltaf langað að spila á Englandi og þetta er algjör draumur."

„Draumastaðsetningin til að spila fótbolta hefur alltaf verið England hjá mér. Um leið og ég heyrði af svona miklum áhuga frá Preston þá lét ég mína umboðsmenn vita að það væri það sem ég vildi."


Hjá Preston eru tveir Danir. Mads Frökjær-Jensen og Emil Riis Jakobsen. Stefán spilaði gegn Mads þegar hann var leikmaður OB.

„Þeir hafa tekið rosalega vel á móti mér, við erum á sama aldri og tengjum rosalega vel. Mads tók sama skrefið og ég, úr danska boltanum í enska. Það er gott að hafa einhvern sem hefur gert það sama svona nýlega. Það hefur hjálpað mikið að hafa hann."

Undirritaður kannast við nokkur nöfn í leikmannahópi Preston. Will Keane og Robbie Brady eru þar á meðal. Keane er uppalinn í Manchester United og skoraði 13 mörk fyrir Preston í deildinni í fyrra. Brady er sömuleiðis uppalinn hjá United, er margreyndur írskur landsliðsmaður og er á sínu þriðja tímabili hjá Preston.

Litla Akranes
Stefán er þriðji Skagamaðurinn til að spila með Preston. Áður spilaði Bjarki Gunnlaugsson með liðinu og Þórður Guðjónsson var þar á láni á sínum tíma.

„Með mér hefur Preston fengið þrjá íslenska leikmenn og þeir hafa allir verið frá Akranesi. Það er mjög fyndin staðreynd, Doddi Guðjóns, Bjarki og svo ég. Fólkið á fjölmiðladeildinni tók eftir þessu, fannst þetta ótrúlegt."

Mikil þekking í fjölskyldunni
Stefán er með gott bakland, þarf ekki að leita langt í leit að skoðunum um fótbolta og hvað skal gera næst á ferlinum.

„Ég er mjög heppinn með fjölskylduna, fólk sem hefur verið í boltanum lengi. Ég ræði auðvitað öll svona skref og svoleiðis mikið við pabba og Stebba bróðir hans. Ég veit ekki hversu mörg símtöl á dag ég tók við þá á meðan þetta allt var í gangi, ræddum allt og ekkert. Svo ræði ég hlutina við kærustuna og aðra í fjölskyldunni," sagði Stefán.

Faðir hans er fyrrum markvörðurinn Þórður Þórðarson og bróðir hans er Stefán Þór Þórðarson. Þórður lék sem atvinnumaður hjá Norrköping og á leik fyrir landsliðið. Stefán Þór á lengri atvinnumannaferil og lék m.a. með Stoke á árunum 2000-2002.

Nánast alltaf spilað líka í miðri viku
Í Championship eru 24 lið, 46 umferðir spilaðar. Það er því mikið leikjaálag.

„Þetta er örugglega ein af þeim deildum þar sem flestir leikir eru spilaðir á tímabili. Þetta er rosalega físísk deild, rosalega mikið af leikjum og rosalega mikið álag. Ég hlakka til að vera kominn inn í það 'zone'; spila leik, eftir leik, eftir leik. Ég hlakka til að upplifa það og skora á sjálfan mig þegar það er í gangi. Ég talaði mikið við Arnór (Sigurðsson) í Blackburn, ræddum um deildina. Hann talaði rosalega vel um hana og talaði vel um lífið á Englandi. Ég er mjög spenntur fyrir því að þetta fari allt í gang."

Stefán er keyptur sem svokallaður 'box-to-box' miðjumaður, leikmaður sem getur spilað á miðri miðjunni.

„Þeir spila 3-4-1-2 eða 3-4-2-1. Mín aðalstaða á að vera einn af þessum tveimur miðjumönnum í línunni fyrir framan vörnina. Ég er þá 'áttan' af þessum tveimur miðjumönnum og hinn er meiri 'sexa', situr meira til baka. Það hefur líka komið til tals að ég geti leyst stöðuna þar fyrir framan."

Sér fyrir sér alvöru stemningu
Deepdale er heimavöllur Preston, tekur rúmlega 23 þúsund manns í sæti.

„Mér líst mjög vel á að spila þar, fór þangað daginn sem ég skrifaði undir. Ég held það sé geggjað að spila á þessum velli seint að kvöldi til. Það eru gamaldags flóðljós sem standa yfir vellinum og ég held það geti komið alvöru stemning á leikjum þarna."

Mun aldrei gleyma leiknum á Wembley
Stefán var spurður út í sigurleikinn á móti Englandi á Wembley. Veistu til þess hvort þeir hafi verið að fylgjast með þér þar?

„Ég heyrði eftir á að þeir hefðu verið á Wembley, en hvort þeir hafi verið eitthvað sérstaklega að horfa á mig veit ég ekki."

Hvað tókst þú úr leiknum?

„Þetta var bara geðveikt, alveg sama þótt þetta hafi verið æfingaleikur. Fyrir okkur að fara á Wembley og vinna var náttúrulega risastórt. Að sjá hvernig þessi völlur er fullsetinn af fólki, það kitlar svolítið að vita að ef við komumst í umspilið hér þá er maður að fara í svoleiðis leik. Þetta er leikur sem ég mun muna eftir út lífið," sagði Stefán að lokum.
Athugasemdir
banner
banner