Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   þri 16. júlí 2024 21:08
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Ótrúleg dramatík er Víkingar voru slegnir út
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Shamrock Rovers 2 - 1 Víkingur R.
1-0 Johnny Kenny ('8)
2-0 Johnny Kenny ('20)
2-1 Nikolaj Hansen ('60)
Rautt spjald: Jack Byrne, Shamrock ('74)

Lestu um leikinn: Shamrock Rovers 2 -  1 Víkingur R.

Víkingur R. er dottinn úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir afar naumt og dramatískt tap gegn Shamrock Rovers í Dyflinn, höfuðborg Írlands.

Víkingar pressuðu á Írana í byrjun en heimamenn svöruðu með tveimur góðum mörkum frá Johnny Kenny, sem komu bæði úr skyndisóknum eftir slakan varnarleik Víkings.

Shamrock leiddi því 2-0 eftir 20 mínútna leik og gerðu Víkingar sig ekki líklega til að minnka muninn fyrr en í síðari hálfleik.

Arnar Gunnlaugsson þjálfari gerði tvær breytingar í leikhlé og voru hans menn talsvert sterkari eftir það. Nikolaj Hansen kom inn af bekknum og minnkaði muninn með skallamarki eftir góða fyrirgjöf frá Ara Sigurpálssyni á 60. mínútu, en Ari var þá nýlega búinn að klúðra góðu færi með að setja boltann yfir markið.

Jack Byrne fékk að líta sitt annað gula spjald fyrir klaufalega tæklingu á 74. mínútu og því þurftu Írarnir að spila einum leikmanni færri til leiksloka. Víkingar sóttu og fengu góð færi en þeim tókst ekki að skora.

Besta færið kom á lokasekúndum uppbótartímans og skapaði gríðarlega dramatíska stundu, þegar brotið var afar klaufalega á Valdimari Þór Ingimundarsyni innan vítateigs.

Nikolaj Hansen steig á vítapunktinn og gat sett leikinn í framlengingu með því að skora. Markvörðurinn fór í vitlaust horn en Hansen setti boltann í stöngina og framhjá og var flautað til leiksloka.

Niðurstaðan afar svekkjandi tap Víkinga gegn Shamrock Rovers, en Víkingar fara niður í forkeppni Sambandsdeildarinnar eftir þetta tap.
Athugasemdir
banner
banner
banner