
Moyes hefur verið að gera frábæra hluti við stjórnvölinn hjá Everton síðan hann tók við félaginu í janúar. Hann er einn af vinsælustu þjálfurum í sögu félagsins eftir að hafa stýrt því í rúman áratug frá 2002 til 2013.
David Moyes þjálfari Everton vill fá fleiri leikmenn inn til félagsins fyrir gluggalok.
Everton er búið að krækja í sjö leikmenn í sumarglugganum en Moyes telur það ekki nægja.
„Ég er ánægður með leikmennina sem hafa bæst við hópinn en ég er samt ekki ennþá orðinn sáttur með hópinn. Við þurfum að fá fleiri leikmenn inn til að auka breiddina," sagði Moyes á fréttamannafundi fyrir leik liðsins gegn Leeds United í fyrstu umferð enska úrvalsdeildartímabilsins. Liðin eigast við á mánudagskvöldið.
„Ég er ánægður með gæðin sem við erum komnir með á vinstri kantinum (Iliman Ndiaye, Jack Grealish og Dwight McNeil). Það er augljóst að þeir geta ekki spilað allir í einu þannig þeir þurfa að berjast um sæti í byrjunarliðinu sem er hollt fyrir alla. Vonandi geta þeir skilað inn mörkunum sem hefur vantað í okkar leik síðastliðið ár. Markaskorun hefur verið okkar helsta vandamál."
Everton vantar einn kantmann til að fullkomna leikmannahópinn sinn en Moyes vill líka fá menn til félagsins í aðrar stöður til að bæta gæðin og auka samkeppni. Hann segist vilja fá þrjá eða fjóra nýja leikmenn inn fyrir gluggalok.
Félaginu hefur mistekist að landa nokkrum leikmönnum þrátt fyrir mikinn áhuga og er Tyler Dibling einn þeirra, þar sem Southampton vill fá mikinn pening fyrir ungstirnið sitt.
„Það hefur verið mjög erfitt að kaupa leikmenn í sumar. Þú nefnir einn leikmann (Dibling) en við erum búnir að bjóða í marga leikmenn í sumar án árangurs. Ég vil ekki nefna nein nöfn því mér finnst rangt að tala um leikmenn annarra liða.
„Við erum búnir að reyna við marga leikmenn án þess að takast að landa þeim og ég veit að fleiri félög hafa lent í svipaðri stöðu."
Athugasemdir