Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 17. október 2020 20:45
Victor Pálsson
England: Man Utd kom til baka og skoraði fjögur
Mynd: Getty
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Newcastle 1 - 4 Manchester United
1-0 Luke Shaw(sjálfsmark, 2')
1-1 Harry Maguire('23)
1-2 Bruno Fernandes('86)
1-3 Aaron Wan-Bissaka('90)
1-4 Marcus Rashford('95)

Manchester United nældi í þrjú mikilvæg stig í ensku úrvalsdeildinni í kvöld er liðið spilaði við Newcastle á St. James' Park í Newcastle.

Lokaleikur kvöldsins á Englandi var ansi fjörugur og byrjaði ballið á annarri mínútu er Luke Shaw varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Shaw reyndi að hreinsa boltann eftir fyrirgjöf en hitti knöttinn illa og fór hann í netið framhjá David de Gea sem stóð á milli stanganna.

Harry Maguire var næstur á blað fyrir gestina frá Manchester en á 23. mínútu tókst honum að skalla knöttinn í netið eftir hornspyrnu Juan Mata.

Staðan 1-1 í hálfleik en svo á 58. mínútu fékk Man Utd kjörið tækifæri til að komast yfir þegar Bruno Fernandes steig á vítapunktinn. Brotið hafði verið á Marcus Rashford innan teigs.

Fernandes hefur hingað til verið mjög öruggur á punktinum en Karl Darlow varði frá honum í þetta sinn og staðan enn jöfn.

Fernandes tókst hins vegar að bæta upp fyrir þetta vítaklúður á 86. mínútu er hann komst einn gegn Darlow í þröngu færi og setti boltann í netið af stakri snilld.

Það var Rashford sem átti stoðsendinguna á Fernandes sem smellhitti boltann og endaði hann í vinklinum.

Aaron Wan-Bissaka skoraði svo sitt fyrsta aðalliðsmark á lokamínútu venjulegs leiktíma er hann þrumaði knettinum í þaknetið eftir góða sókn.

Lokaspyrna leiksins var síðar frábært mark Rashford eftir góða skyndisókn og bætti hann við fjórða marki leiksins.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í kvöld og var Man Utd að vinna sinn annan deildarsigur á tímabilinu og er með sex stig í 15. sætinu. Newcastle er með sjö í 11. sæti.

Athugasemdir
banner
banner