Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   lau 17. desember 2022 22:26
Ívan Guðjón Baldursson
37 ára Modric: Þarf að hugsa vandlega um EM
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Luka Modric er fyrirliði króatíska landsliðsins og var meðal bestu leikmanna liðsins er það endaði í þriðja sæti heimsmeistaramótsins í Katar.


Króatar hafa verið feykilega seigir á stórmótum og enduðu til að mynda í öðru sæti á HM 2018. Modric hefur verið ein af helstu ástæðum bakvið velgengni Króata en margir bjuggust við að hann myndi leggja landsliðsskóna á hilluna eftir Katar.

Zlatko Dalic landsliðsþjálfari biðlaði til Modric að halda áfram og fara með landsliðinu á næsta Evrópumót sem verður haldið sumarið 2024, eftir eitt og hálft ár. Hinn 37 ára gamli Modric, sem verður næstum 39 ára þegar næsta EM á sér stað, ætlar að hugsa málið. 

„Við munum sjá til. Ég ætla bara að taka eitt skref í einu og njóta mín með landsliðinu," svaraði Modric þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að fara með Króatíu á næsta Evrópumót eftir sigur í bronsleiknum gegn Marokkó í dag.

„Mér líður eins og ég geti ennþá spilað í háum gæðaflokki og ætla þess vegna að halda áfram með landsliðinu. Ég verð áfram með út Þjóðadeildina og mun nýta tímann til að hugsa mig vandlega um og taka svo ákvörðun varðandi EM 2024."

Modric byrjaði alla landsleiki Króatíu í Katar og spilaði 656 mínútur af 690. Hann er einnig byrjunarliðsmaður í feykiöflugu stórliði Real Madrid.

Það eru þó afar litlar líkur að Modric verði með á HM 2026, ekki frekar en margir núverandi landsliðsfélagar hans sem hafa gert það gott á undanförnum mótum. 

Sjá einnig:
Býst við að Modric verði með Króatíu á EM


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner