Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 18. júlí 2024 20:24
Brynjar Ingi Erluson
Sambandsdeildin: Valur valtaði yfir Vllaznia - Mæta St. Mirren frá Skotlandi
Valsmenn voru í gír í kvöld
Valsmenn voru í gír í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Kristinn Freyr og Patrick Pedersen skoruðu báðir
Kristinn Freyr og Patrick Pedersen skoruðu báðir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vllaznia 0 - 4 Valur (2-6, samanlagt)
0-1 Kristinn Freyr Sigurðsson ('13 )
0-2 Guðmundur Andri Tryggvason ('15 )
0-3 Patrick Pedersen ('36 )
0-4 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('67 )
Lestu um leikinn

Valur kom sér örugglega áfram í 2. umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu með því að valta yfir albanska liðið Vllaznia, 4-0, á Loro Borici-vellinum í Shköder í kvöld.

Liðin gerðu 2-2 jafntefli á Hlíðarenda og þurfti Valur að vera upp á sitt besta til að komast áfram í næstu umferð.

Þeir sýndu sparihliðarnar í kvöld. Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val á bragðið á 13. mínútu. Guðmundur Andri Tryggvason fór upp kantinn, kom honum í teiginn á Jónatan Inga Jónsson sem náði léttri snertingu á boltann og fullkomið fyrir Kristinn sem smellti boltanum í vinstra hornið.

Tveimur mínútum síðar kom annað markið. Gylfi Þór Sigurðsson kom boltanum á Jónatan sem fann Guðmund Andra. Hann tók á móti boltanum áður en hann smellti honum í fjærhornið og Valsmenn komnir í þægilega forystu.

Esat Mala var hársbreidd frá því að minnka muninn fyrir Vllaznia er hann reyndi skot fyrir utan teig en boltinn í stöngina.

Valsmenn fengu mark á silfurfati á 36. mínútu. Frederik Schram sparkaði löngum bolta fram. Miðverðir Vllaznia virtust vera með allt í teskeið en þá kom Patrick Pedersen sterkur, setti pressu á Milos Stojanovic sem ætlaði að skalla boltann til baka en vildi ekki betur en svo að boltinn fór til Patrick sem setti hann yfir öxlina á markverði Vllaznia og í netið.

Rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok rak Tryggvi Hrafn Haraldsson síðasta naglann í kistu Vllaznia. Gylfi Þór átti þessa lúxussendingu í gegn á Tryggva sem lyfti boltanum yfir markvörð heimamanna og í netið.

Stuðningsmenn Vllaznia voru bersýnilega ósáttir við spilamennsku sinna manna. Þeir köstuðu blysum og öðru eins á völlinn, en Valsmönnum var sama.

Þeir eru komnir áfram í aðra umferð og mæta þar St. Mirren frá Skotlandi. Leikirnir fara fram 25. júlí og 1. ágúst næstkomandi.
Athugasemdir
banner
banner