fös 18. september 2020 13:00
Magnús Már Einarsson
Arteta spurður út í Rúnar Alex - Tilkynning fljótlega
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var spurður út í markmannsmálin hjá félaginu á fréttamannafundi í dag. Arsenal seldi markvörðinn Emiliano Martinez til Aston Villa í vikunni og Rúnar Alex Rúnarsson er nálægt því að koma til félagsins frá Dijon í hans stað.

Arteta vildi ekki staðfesta að Rúnar Alex sé á leiðinni en segir stutt í tilkynningu frá félaginu.

„Brotthvarf Emi er mikill missir. Við óskum honum alls hins besta en við verðum að fá mann í hans stað," sagði Arteta.

„Við höfum verið að leita á markaðinum og mun fljótlega geta kynnt nýjan leikmann."

Arsenal hefur einnig verið á eftir David Raya, markverði Brentford, en síðarnefnda félagið vill ekki selja. Aðspurður hvort Arsenal ætli að kaupa annan markvörð sagði Arteta: „Það veltur á því hvað gerist með þriðja markvörðinn."

Bernd Leno er aðalmarkvörður Arsenal en hinn 26 ára gamli Matt Macey hefur verið varamarkvörður í byrjun tímabils. Macey gæti hins vegar verið á förum og þá gæti Arsenal keypt annan markvörð auk Rúnars.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner