
„Þetta voru gríðarlega erfiðar aðstæður en mér fannst við standa í þeim í 60 mínútur. Síðan koma bara 2-3 skítamörk sem við hefðum átt að koma í veg fyrir,“ sagði Sigrún Eva Sigurðardóttir, miðjumaður Aftureldingar, eftir 3-0 tap gegn Breiðablik á útivelli.
„Við ætluðum bara að standa í þeim og við gerðum það. Við ætluðum að spila okkar bolta og leggja okkur allar fram. Það er ekkert gefins í þessu,“ sagði Sigrún sem hefur trú á að Afturelding geti haldið sér í deildinni.
„Þetta er ekkert búið fyrr en þetta er búið. Við höfum fulla trú á þessu verkefni og leggjum okkur allar fram áfram.“
Næsta verkefni Aftureldingar er að fá ríkjandi Íslandsmeistara Vals í heimsókn í Mosó. Með sigri geta Valskonur tryggt sér titilinn.
„Það fer enginn titill á loft í Mosó, það er bara þannig,“ sagði Sigrún Eva að lokum.
Athugasemdir