sun 18. desember 2022 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
„Frakkar sigurstranglegri en við erum með besta leikmann allra tíma"
Mynd: Getty Images

Emiliano Martinez, markvörður Argentínu, er spenntur fyrir úrslitaleik heimsmeistaramótsins gegn Frakklandi.


Liðin mætast í einni eftirvæntustu viðureign fótboltaheimsins þar sem heimurinn mun fylgjast með argentínsku goðsögninni Lionel Messi keppa við frönsku stórstjörnuna Kylian Mbappe.

Messi, 35 ára, hefur sjö sinnum unnið Gullknöttinn án þess þó að hafa nokkurn tímann unnið stærstu keppni heims - HM. Hann komst í úrslitaleikinn 2014 en tapaði þar gegn Þýskalandi eftir framlengda viðureign. Nú fær hann sitt síðasta tækifæri til að sigra þessa keppni og staðfesta sig sem besta fótboltamann sögunnar í augum ansi margra.

„Fólk segir að Frakkar séu sigurstranglegri en við höfum smá forskot því besti leikmaður allra tíma er í okkar liði," sagði Emiliano Martinez á fréttamannafundi í gær.

„Okkur finnst gott að heyra að andstæðingurinn sé sigurstranglegri því okkur líður ekki eins og við séum betri eða verri heldur en neinn.

„Ég segi alltaf það sama: Við erum með besta leikmann allra tíma og í bland við góða vörn getum við unnið hvaða andstæðing sem er."


Athugasemdir
banner
banner