Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mið 18. desember 2024 14:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Arnar Gunnlaugs: Fótboltinn er bara fljótur að bíta þig í rassgatið
Víkingar geta skrifað söguna á morgun
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur hefur staðið sig vel í Sambandsdeildinni.
Víkingur hefur staðið sig vel í Sambandsdeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
LASK fagnar marki gegn Manchester United fyrir nokkrum árum.
LASK fagnar marki gegn Manchester United fyrir nokkrum árum.
Mynd: Getty Images
Aron Elís er ekki með á morgun.
Aron Elís er ekki með á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr síðasta leik gegn Djurgården.
Úr síðasta leik gegn Djurgården.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það væri ótrúlegt að komast áfram'
'Það væri ótrúlegt að komast áfram'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Leikurinn á morgun leggst vel í mig. Það er mikið undir," segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í samtali við Fótbolta.net. Á morgun spilar Víkingur sinn síðasta leik í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar er þeir mæta LASK í Austurríki.

„Þegar dregið var þá held ég að allir í herberginu hefði tekið þessu; að vera með örlögin í okkar eigin höndum þegar kæmi að lokaleiknum. Núna erum við í þessari stöðu og við þurfum að nýta okkur það. Við þurfum að klára verkefnið, það er ekkert flóknara en það. Sama hvernig við förum að því, þá verðum við að klára það."

Víkingar eru fyrir leikinn á morgun í 19. sæti Sambandsdeildarinnar með sjö stig. Liðin í sætum níu til 24 fara í umspil um að komast í 16-liða úrslit og þar ætla Víkingar að vera. En til þess að vera þar þá þurfa Víkingar að vona að morgundagurinn verði góður.

Lið úr efsta styrkleikaflokki
Andstæðingurinn á morgun er LASK, lið úr efsta styrkleikaflokki sem hefur valdið vonbrigðum í þessari keppni. Þeir eiga ekki lengur möguleika á að komast áfram, eru aðeins með tvö stig og voru niðurlægðir í síðasta leik gegn Fiorentina.

„Þetta er lið sem var í efsta styrkleikaflokki með Chelsea, Fiorentina og þessum liðum. Við vorum klárlega heppnir að fá þá, klárlega lakasta liðið úr efsta styrkleikaflokki. Þeir byrjuðu keppnina mjög vel og komust 2-0 yfir á móti Djurgården heima en svo jafnaði Djurgården og eftir það er eins og allur vindur hafi farið úr þeim," segir Arnar.

„Þetta er klárlega sterkt lið og það er engin tilviljun að þeir hafi verið í efsta styrkleikaflokki. Þeir eiga ekki lengur möguleika en það er erfitt að fabúlera um það hvort það hjálpi okkur eða ekki. En við eigum ekkert að vera að hugsa um það, við þurfum bara að klára þetta verkefni."

„Í þessum fyrsta leik á móti Djurgården voru þeir frábærir. Þeir sáu örugglega fram á að komast auðveldlega áfram en fótboltinn er bara fljótur að bíta þig í rassgatið. Þeir misstu móðinn eftir að Djurgården jafnaði. Þeir hafa verið að gera ágætis hluti í leikjunum sjálfum en hafa verið með lítið sjálfstraust. Þetta er lið sem var í efsta styrkleikaflokki og á pappír er þetta sterkasta liðið sem við erum að mæta. Þetta verður klárlega erfiður leikur," segir Arnar.

Hjálpar það að LASK á ekki lengur möguleika á því að komast áfram?

„Þú getur alveg fært rök á báða vegu. Þetta er síðasti leikurinn þeirra fyrir jólafrí og ef ég væri þjálfarinn þeirra þá myndi ég leggja mikla áherslu á að vinna þennan leik og fara inn í jólafrí með góðan haus. Líka það að ef þú vinnur leiki í þessari keppni þá færður tekjur sem skipta félög máli. Aðalmálið er að mæta þeim af festu; lið sem er komið í jólafrí í hausnum, það reynir mikið á sig en um leið og þeir finna fyrir mótlæti þá gætu þeir verið fljótir að hugsa um Tenerife," segir þjálfari Víkinga.

Segir manni að við eigum heima á þessu sviði
Víkingar hafa staðið sig frábærlega í keppninni og örugglega betur en flestir bjuggust við.

„Þetta var jafn og þéttur hópur af liðum sem við fengum. Ég held að fólk átti sig kannski ekki alveg á styrkleika þessara liða. Að vera komnir þetta langt og eiga séns á að komast áfram er bara gríðarlega sterkt," segir Arnar en liðið tapaði síðasta leik sínum gegn Djurgården frá Svíþjóð.

„Það var margt gott í leiknum gegn Djurgården. Fyrir utan síðasta korterið gegn Omonia og fyrsta korterið í seinni hálfleik gegn Djurgården þá hefur þetta verið mjög öflug keppni hjá okkur. Við höfum verið mjög samkeppnishæfir í öllum leikjunum. Það segir manni það að við eigum vel heima á þessu sviði. Þú getur samt ekki verið of kokhraustur því þá verður þér refsað. Það er refsað meira fyrir hver mistök hérna. Þú þarft að vera mun agaðari og þolinmóðari í öllum þínum verkum á meðan leik stendur. Við vorum fljótir að læra gegn Omonia og verðum vonandi fljótir að læra eftir fyrsta korterið í seinni hálfleik á móti Djurgården."

Arnar segir að staðan sé góð á hópnum fyrir leikinn og menn í góðu formi. Það hafi hjálpað að fá leiki í Bose-mótinu á milli leikja í Sambandsdeildinni.

„Staðan er ekki ósvipuð því sem hún hefur verið seinni hlutann af sumrinu og núna í vetur. Aron Elís, Pablo og Gunnar Vatnhamar eru frá. Það er ekki gott að svona þrír sterkir póstar eru ekki með en eins og við höfum sagt áður þá er hópurinn sterkur," segir Arnar.

Það væri ótrúlegt
Víkingar þurfa ekki endilega góð úrslit á morgun en það hjálpar auðvitað. Ef ekki tekst að ná í góð úrslit, þá er enn möguleiki á því að liðið fari áfram í umspilið - ef önnur úrslit detta með þeim.

Ætla Víkingar að fylgjast með öðrum úrslitum á meðan leik þeirra stendur?

„Við erum að spá í hvað við ætlum að gera. Ég held að þú verðir að hafa augun með því. Þú verður að hafa einhver eyru á bekknum til að fylgjast með þessu. Þetta veltur á okkur en þú verður að bregðast við miðað við aðstæður," segir Arnar.

„Það væri ótrúlegt að komast áfram. Þegar við byrjuðum á þetta verkefni var þetta fjarlægur veruleiki. Blikarnir gerðu ótrúlega vel í fyrra að komast í riðlakeppnina. Þetta er frábært fyrir íslenskan fótbolta. Þetta er það sem öll lið vilja og stundum ganga hlutirnir upp," sagði Arnar Gunnlaugsson en hann viðurkenndi að lokum að það yrði erfitt að missa af því að komast áfram miðað við núverandi stöðu. Það yrði sár sem væri lengi að gróa. Vonandi skrifa Víkingar söguna á morgun en leikur þeirra gegn LASK hefst klukkan 20:00 að íslenskum tíma.
Stöðutaflan Evrópa Sambandsdeildin
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Chelsea 6 6 0 0 26 5 +21 18
2 Guimaraes 6 4 2 0 13 6 +7 14
3 Fiorentina 6 4 1 1 18 7 +11 13
4 Rapid 6 4 1 1 11 5 +6 13
5 Djurgarden 6 4 1 1 11 7 +4 13
6 Lugano 6 4 1 1 11 7 +4 13
7 Legia 6 4 0 2 13 5 +8 12
8 Cercle Brugge 6 3 2 1 14 7 +7 11
9 Jagiellonia 6 3 2 1 10 5 +5 11
10 Shamrock 6 3 2 1 12 9 +3 11
11 APOEL 6 3 2 1 8 5 +3 11
12 Pafos FC 6 3 1 2 11 7 +4 10
13 Panathinaikos 6 3 1 2 10 7 +3 10
14 Olimpija 6 3 1 2 7 6 +1 10
15 Betis 6 3 1 2 6 5 +1 10
16 Heidenheim 6 3 1 2 7 7 0 10
17 Gent 6 3 0 3 8 8 0 9
18 FCK 6 2 2 2 8 9 -1 8
19 Vikingur R. 6 2 2 2 7 8 -1 8
20 Borac BL 6 2 2 2 4 7 -3 8
21 Celje 6 2 1 3 13 13 0 7
22 Omonia 6 2 1 3 7 7 0 7
23 Molde 6 2 1 3 10 11 -1 7
24 Backa Topola 6 2 1 3 10 13 -3 7
25 Hearts 6 2 1 3 6 9 -3 7
26 Boleslav 6 2 0 4 7 10 -3 6
27 Istanbul Basaksehir 6 1 3 2 9 12 -3 6
28 Astana 6 1 2 3 4 8 -4 5
29 St. Gallen 6 1 2 3 10 18 -8 5
30 HJK Helsinki 6 1 1 4 3 9 -6 4
31 Noah 6 1 1 4 6 16 -10 4
32 TNS 6 1 0 5 5 10 -5 3
33 Dinamo Minsk 6 1 0 5 4 13 -9 3
34 Larne FC 6 1 0 5 3 12 -9 3
35 LASK Linz 6 0 3 3 4 14 -10 3
36 Petrocub 6 0 2 4 4 13 -9 2
Athugasemdir
banner
banner
banner