Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 19. mars 2023 19:08
Elvar Geir Magnússon
Jói Kalli: Markmiðið skýrt, ætlum á EM
Icelandair
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það hefur verið langur aðdragandi að þessu en við erum að fara inn í leiki sem telja virkilega og það gerir þetta svo skemmtilegt," segir Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins.

Rætt var við Jóa Kalla í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977. Á fimmtudaginn, 23. mars, hefur Ísland leik í undankeppni EM þegar leikið verður gegn Bosníu/Hersegóvínu í borginni Zenica.

„Þetta verður alls ekki auðvelt, þetta er hrikalegur völlur að fara á og verður krefjandi verkefni. Við verðum að vera klárir í alvöru baráttu og spila fótbolta inn á þeim svæðum sem við ráðum við," segir Jóhannes.

Hluti af stúkunum verður ekki í notkun þar sem Bosnía tekur út refsingu vegna óláta áhorfenda. Jóhannes segir Bosníumenn reyna ýmislegt til að kreista fram hagstæð úrslit.

„Það verður örugglega gríðarleg stemning þarna þó þeir séu í einhvers konar heimaleikjabanni. Þeir eru frægir fyrir þennan völl og eru mjög erfiðir á honum. Við verðum að vera klárir í þetta, vera með grimmd og ákefð í því að svara öllu því sem Bosníumenn munu henda framan í okkur, bæði líkamlega og andlega."

„Það verður miklu meiri pressa á þá að skora fyrsta markið heldur en okkur. Við þurfum að passa og verja markið okkar vel. Það þýðir ekki að við ætlum að leggjast í einhverjar skotgrafir en ætlum að reyna að koma í veg fyrir að þeir komi boltanum í þau svæði sem þeir vilja koma honum í. Við verðum að hafa góðar gætur á Edin Dzeko, við þurfum að takmarka það eins og við getum að hann fái tækifæri."

Þyrstir í að ná árangri
Leikmenn eru þegar farnir að tínast til München í Þýskalandi þar sem Ísland mun æfa áður en flogið verður til Bosníu daginn fyrir leik.

„Við viljum ekki vera að fara of snemma til Bosníu, eða of snemma til Zenica. Það hentar okkur og leikmönnunum mjög vel að fara seint í landið sem við erum að fara að spila við. Við verðum að geta nýtt tímann og verið vissir um að ekki sé fylgst með því sem við erum að gera," segir Jóhannes.

Næsta sunnudag er síðan útileikur gegn Liechtenstein. Auk þessara liða eru Portúgal, Slóvakía og Lúxemborg í riðlinum en tvö efstu liðin tryggja sér sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi 2024.

„Portúgal er langsterkasta liðið í riðlinum, það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að ná í úrslit á móti þeim en að öllu eðlilegu eru þeir að fara að vinna þennan riðil. Hitt verður jafnt og mun ráðast á pínulitlum atriðum," segir Jóhannes Karl.

„Markmiðið er alveg skýrt hjá hópnum, við ætlum okkur að komast á EM. Það er bara númer eitt, tvö og þrjú. Við ætlum okkur að minnsta kosti að ná öðru sætinu. Leikmönnum og þjálfarateyminu þyrstir í það að ná árangri. Við ætlum okkur að uppskeran verði sú að við komumst á EM."

Hann segir að markmiðið sé að ná í að minnsta kosti eitt stig út úr komandi leik í Zenica.

„Það yrði frábært að koma vel út úr þessum glugga, sem við ætlum að gera, og fá spennandi leiki hér heima gegn Slóvakíu og Portúgal í vonandi sól og blíðu. Fyrri leikurinn er sautjánda júní og vonandi stemning og fullur Laugardalsvöllur."
Útvarpsþátturinn - Albertsmálið, hópurinn og KA
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner