Matt Garner er að snúa aftur eftir langa fjarveru. Pablo Punyed er síðan komin til ÍBV frá Stjörnunni.
„Þetta er ekkert óeðlilegt. Þetta er svipuð staða og menn enduðu í fyrra. Fótbolta.net mótið hressti aðeins upp á sálarlífið og trú manna á að við getum náð aðeins betri árangri en í fyrra," segir Bjarni Jóhannsson þjálfari ÍBV en Fótbolti.net spáir liðinu 8. sæti í Pepsi-deildinni í ár.
„Markmiðið er að losa sig við þessa botnbaráttu. Það er svo lítið á milli, að vera í ströggli eða vera í góðum málum. Góð byrjun geta fleytt mönnum langt og komið sjálfstraust í menn. Okkar markmið er fyrst og fremst að byggja upp gott lið á næstu þremur árum."
„Markmiðið er að losa sig við þessa botnbaráttu. Það er svo lítið á milli, að vera í ströggli eða vera í góðum málum. Góð byrjun geta fleytt mönnum langt og komið sjálfstraust í menn. Okkar markmið er fyrst og fremst að byggja upp gott lið á næstu þremur árum."
Eyjamenn hafa fengið nokkra nýja leikmenn til liðs við sig í sumar en þar á meðal er Pablo Punyed sem kom frá Stjörnunni.
„Hann er mjög öflugur leikmaður og við væntum mikils af honum í sumar eins og þessum strákum sem við höfum verið að fá."
Konur leikmanna ráða of miklu
Framherjinn ungi, Elvar Ingi Vignisson eða Uxinn, kom frá Fjarðabyggð en hann vakti athygli þegar hann skoraði fernu gegn Fram á dögunum.
„Þetta er svakalegur nagli. Hann er spennandi leikmaður sem hefur margt sem aðrir hafa ekki. Hann er líkamlega vel á sig kominn og það eru engin aukakíló á honum. Það eru bara vöðvar."
Bjarni segir að það hafi verið erfitt að fá íslenska leikmenn til Eyja, líkt og oft vill verða fyrir félög úti á landi.
„Ég var áður á Akureyri í þrjú ár og þetta er mikill bardagi. Menn eru ekki til í að koma og taka skrefið. Það er skrýtið af því að í gegnum árin hafa menn blómstrað í Eyjum og farið síðan erlendis og klúbba uppi á landi. Ef menn hafa kjark og trú á sjálfum sér þá er þetta fínn staður til að fá sénsinn."
Hvað er það sem er helst að standa í veg fyrir því að menn komi til Eyja? „Það eru fyrst og fremst samgönguvesenið. Annað, sem er ekki í Eyjum, en á mörgum öðrum stöðum úti á landi, er vesen fyrir þessa stráka að fá atvinnu fyrir sumarið."
„Það er líka einn þáttur í þessu sem er svolítið skemmtilega vondur. Það getur verið mjög slæmt að ræða við leikmann sem á kærustu. Oft eru það þær sem stoppa þetta algjörlega af. Þær hafa ekki kjarkinn og þær eru farnar að ráða alltof miklu þessar konur," sagði Bjarni og hló.
Garner að mæta eftir eins og hálfs árs fjarveru
Eyjamenn hafa endurheimt Matt Garner sem er að komast í gang eftir að hafa fótbrotnað illa í lokaumferðinni árið 2014.
„Matt Garner hefur æft jafnt og þétt í vetur. Það voru gleðitíðindi fyrir okkur þegar hann mátti byrja að æfa. Eftir svona slæm meiðsli getur þetta tekið langan tíma að komast í gang. Hann er aðeins farinn að koma inn á í leikjum og vonandi heldur það áfram. Matt er með flott hugarfar og sterkur í hóp. Vonandi heldur hann svona skrefum áfram."
Derby Carrillo, landsliðsmarkvörður El Salvador, samdi við ÍBV í febrúar en hann er ekki kominn með leikheimild þar sem pappírsvinna er ennþá í gangi. Bjarni reiknar þó með honum í fyrsta leik.
„Þetta er mjög álitlegur markmaður og við ætlumst til mikils af honum," sagði Bjarni sem vonast ennþá eftir frekari liðsstyrk fyrir mót.
„Við misstum alla okkar sentera frá því í fyrra. Glenn fór til Breiðabliks, Sito hvarf á braut og síðan komu þessi leiðindameiðsli hjá Gunnari Heiðari í vetur. Mér finnst við ekki hafa fengið þennan týpíska senter í staðinn en vonandi birtist hann rétt fyrir mót."
Hér að ofan má hlusta á viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir