Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   þri 19. maí 2020 16:30
Elvar Geir Magnússon
Fara til Siglufjarðar og Dalvíkur í stað Spánar
Frá Dalvík.
Frá Dalvík.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Nýliðar Gróttu í Pepsi Max-deildinni hyggjast taka þrjá æfingaleiki áður en keppni hefst á Íslandsmótinu. Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, var gestur í hlaðvarpsþættinum Niðurtalningin í dag.

Grótta ætlaði í æfingaferð til Spánar í vor en þeirri ferð var aflýst vegna kórónaveirufaraldursins. Liðið ætlar í staðinn að ferðast innanlads og fer norður í æfingaferð til Siglufjarðar og Dalvíkur.

„Við ætlum að gera góða helgi um hvítasunnuhelgina, æfa tvisvar á dag og spila við Dalvík/Reyni. Það er mikil stemning í hópnum með þessa ferð. Við komumst ekki til Spánar en þessi ferð verður okkar lokaundirbúningur fyrir mót," segir Ágúst.

„Við ætlum í þessari ferð að þétta raðirnar og halda fundi. Við ætlum í þessari ferð að skoða planið fyrir sumarið og setja okkur markmið. Það verður skemmtilegt að fara norður og ég hef heyrt að þar verði sól og blíða næstu vikurnar."

Grótta mun gista á Siglufirði en taka rútu yfir á Dalvík þar sem liðið æfir og spilar.

„Dalvíkingar ætla að taka vel á móti okkur og hlúa vel að okkur. Við fáum að nýta íþróttamiðstöðina. Fyrst sólin á Spáni er ekki í boði þá er það bara sólin á Dalvík."

Grótta ætlar einnig að spila æfingaleik við Víking Reykjavík, í Fossvoginum, og svo er stefna liðsins að taka þriðja æfingaleikinn á heimavelli viku fyrir mót.


Niðurtalningin - Gústi og Gróttusumarið
Athugasemdir
banner