fös 19. júlí 2019 23:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Versta tap í 150 ára sögu Kilmarnock
Leikmenn Connah's Quay Nomads fagna.
Leikmenn Connah's Quay Nomads fagna.
Mynd: Getty Images
Það var leikið í forkeppni Evrópudeildarinnar í gær. Stjarnan komst áfram og mætir Espanyol í næstu umferð. Á meðan féllu Breiðablik og KR úr leik.

Skoska félagið Kilmarnock féll einnig úr leik. Fyrirliði liðsins, Gary Dicker, segir að úrslitin séu þau „verstu í sögu Kilmarnock."

Andstæðingar Kilmarnock í einvíginu voru Connah's Quay Nomads frá Wales. Fyrir einvígið var það talið 200 á móti 1 að Connah's Quay Nomads myndi slá Kilmarnock úr keppni, en það gerðist.

Kilmarnock vann fyrri leikinn 2-1 á útivelli, en á heimavelli í gær tapaði liðið 2-0. Bæði mörkin komu í seinni hálfleiknum. Lið frá Wales eru yfirleitt ekki hátt skrifuð í Evrópukeppnum og í grein BBC er talað um þennan sigur sem stærsta afrek frá félagi frá Wales í Evrópukeppni síðan deildin þar í landi var stofnuð.

Þjálfari liðsins sagði að um væri að ræða stærri sigur en sigur Liverpool gegn Barcelona í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.

Flestir leikmanna Nomads eru ekki atvinnumenn í fótbolta.

„Við urðum okkur sjálfum og stuðningsmönnunum til skammar. Ég ætla ekki að fegra þetta neitt, þetta var bara ekki nægilega gott," sagði Gary Dicker, fyrirliði Kilmarnock, eftir leikinn. Hann segir að þetta sé versta tap í 150 ára sögu félagsins.

„Það hlýtur að vera. Við verðum að taka sökina. Stuðningsmennirnir hafa beðið lengi eftir þessu og við bjóðum upp á þetta."

„Ég er miður mín fyrir þeirra hönd."

Connah's Quay Nomads mætir Partizan Belgrad frá Serbíu í næstu umferð. Spenandi verður að sjá hvað gerist í því einvígi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner