Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 19. september 2020 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 10. umferð: Fótbolti sem mér finnst gaman að spila
Aron Elí Sævarsson (Afturelding)
Lengjudeildin
Aron Elí er á sínu fyrsta tímabili í Mosfellsbæ.
Aron Elí er á sínu fyrsta tímabili í Mosfellsbæ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir er bróðir Arons.
Birkir er bróðir Arons.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron segist vera að eiga sitt besta tímabil.
Aron segist vera að eiga sitt besta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding fagnar marki í sumar.
Afturelding fagnar marki í sumar.
Mynd: Raggi Óla
Bakvörðurinn Aron Elí Sævarsson er leikmaður umferðarinnar í Lengjudeildinni eftir flotta frammistöðu í mikilvægum sigri Aftureldingar á Þrótti í vikunni.

„Aron Elí var maður leiksins í kvöld. Bjó til endalaust af færum fyrir liðsfélaganna sína og gefur Aftureldingu mikið sóknarlega," sagði Anton Freyr Jónsson í skýrslu sinni frá leiknum.

Sjá einnig:
Lið 10. umferðar: Fimm í þriðja sinn - Binni þjálfarinn

„Frammistaðan var heilt yfir virkilega góð, allir sem sáu þennan leik geta verið sammála því að við vorum sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þeir gera vel að refsa okkur fyrir að vera ekki komnir yfir, og þeir komast í 1-0. Það sem skilar svo sigrinum er að við vorum áfram jákvæðir þrátt fyrir það og höfðum trú á að geta skorað tvö. Gott líka að hafa góða menn til að koma inn af bekknum," segir Aron um 2-1 endurkomusigurinn á Þrótti.

Aron var öflugur sóknarlega í leiknum. Er það eitthvað sem hann leggur sérstaklega upp með?

„Já, ég myndi segja það. Við spilum mjög sókndjarfan fótbolta og ég fæ að fara mikið upp og niður vænginn meðan kantmennirnir okkar finna svæði inn á miðjunni. Þetta er fótbolti sem mér finnst gaman að spila sem bakvörður."

Afturelding komst sex stigum frá fallsvæði með sigrinum, en ef Þróttur hefði unnið þá hefðu liðin verið jöfn að stigum og Afturelding þá í bullandi fallbaráttu.

„Ótrúlega ljúft," segir Aron um sigurinn og hversu mikla þýðingu hann hafði. „Við höfum verið að spila mikið af svipuðum leikjum þar sem við erum að skapa nóg af færum en ekki náð að klára stigin þrjú. Það að koma svona til baka og klára leikinn var því enn sætara."

Aron er í uppalinn hjá Val, en gekk í raðir Aftureldingu í sumar eftir að hafa spilað með Haukum og Þór í fyrra.

„Tímabilið hefur komið mér á óvart. Hvað við höfum spilað vel þó úrslitin hafi ekki verið að detta eins og allir vita. Persónulega mitt besta tímabil alveg klárlega og liðið verður bara betra og betra. Öflugir leikmenn í liðinu og virkilega sáttur með allt í kringum liðið," segir Aron.

Aron, sem er 23 ára, er yngri bróðir Birkis Más Sævarssonar, leikmanns Vals og hægri bakvarðar landsliðsins á báðum stórmótum til þessa. Myndi Aron segja að hann og Birkir væru líkir leikmenn á vellinum?

„Skemmtileg spurning sem eflaust eru ólík svör við. Bæði já og nei er svarið mitt. Við erum líkir að því leitinu til að við spilum flest alla fótboltaleiki með jafnri frammistöðu. Þá á ég við að við erum ekki mest áberandi maðurinn á vellinum að gera einhverjar gloríur. Að öðru leiti er hann því miður aðeins sneggri en ég og heilt yfir betri fótboltamaður, stefnum á að snúa því við sem fyrst. Verst að hann virðist ekki eldast."

Eins og áður kemur fram er Afturelding núna sex stigum frá fallsvæðinu þegar sex umferðir eru eftir.

„Satt að segja hef ég ekki hugsað í eina sekúndu um að við séum að fara falla úr þessari deild. Frekar horft upp töfluna og stefna að því að ná þessum miðjuliðum. Við eigum heima alla vega þar," segir Aron Elí Sævarsson, leikmaður tíundu umferðar Lengjudeildarinnar.

Næsta umferð hefst á morgun og á Afturelding heimaleik gegn Víkingi Ólafsvík á mánudag.

Bestir í fyrri umferðum:
Bestur í 1. umferð: Fred Saraiva (Fram)
Bestur í 2. umferð: Bjarki Þór Viðarsson (Þór)
Bestur í 3. umferð: Sævar Atli Magnússon (Leiknir R.)
Bestur í 4. umferð: Andri Freyr Jónasson (Afturelding)
Bestur í 5. umferð: Sindri Kristinn Ólafsson (Keflavík)
Bestur í 6. umferð: Adam Ægir Pálsson (Keflavík)
Bestur í 7. umferð: Vuk Oskar Dimitrijevic (Leiknir R.)
Bestur í 8. umferð: Albert Hafsteinsson (Fram)
Bestur í 9. umferð: Harley Willard (Víkingur Ó.)
Bestur í 11. umferð: Joey Gibbs (Keflavík)
Bestur í 12. umferð: Joey Gibbs (Keflavík)
Bestur í 13. umferð: Oliver Heiðarsson (Þróttur R.)
Bestur í 14. umferð: Sævar Atli Magnússon (Leiknir R.)
Bestur í 16. umferð: Alexander Már Þorláksson (Fram)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner