Sóknarmaðurinn Björgvin Stefánsson var í dag kynntur sem nýr leikmaður KR ásamt Kristni Jónssyni. Björgvin er þekktur markaskorari úr Inkasso-deildinni þar sem hann hefur raðað inn mörkum fyrir Hauka.
„Hún smellpassar!" sagði Björgvin eftir að hann var kominn í KR treyjuna.
„Þetta er stór klúbbur með mikla sögu. Þetta er einn stærsti klúbbur landsins ef ekki sá stærsti. Það er sigurhefð hér og ég vil taka þátt í henni."
„Þegar Rúnar (Kristinsson) hringdi varð ég strax mjög spenntur. Ég held að það hafi tekið hann einn fund til að sannfæra mig um að þetta væri rétti klúbburinn."
Björgvin spilaði í efstu deild með Val og Þrótti á síðasta tímabili en skoraði ekki mikið.
„Ég á algjörlega eftir að sanna mig í þessari deild. Ég hef trú á mér og tel mig geta spilað í henni, nú er komið að mér að sýna að ég get skorað í þessari deild."
Viðtalið við Björgvin er í heild sinni í spilaranum hér að ofan en þar talar hann meðal annars um eftirhermukeppni sem hann fór í við Hjörvar Hafliðason í útvarpsþætti á FM 957.
Viðtöl eftir fréttamannafund KR:
Kiddi Jóns: Hoppaði fram og til baka
Rúnar Kristins: Björgvin getur skorað í Pepsi
Óskar Örn: Okkar að fá fólk á völlinn
Athugasemdir