Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fim 19. desember 2024 22:04
Elvar Geir Magnússon
Sambandsdeildin: Víkingur áfram og gæti mætt Sverri Inga
Víkingar fagna marki sínu.
Víkingar fagna marki sínu.
Mynd: Getty Images
Byrjunarlið Víkings í kvöld.
Byrjunarlið Víkings í kvöld.
Mynd: Getty Images
LASK 1 - 1 Víkingur R.
0-1 Ari Sigurpálsson ('23 , víti)
1-1 Marin Ljubicic ('26 )
Rautt spjald: Karl Friðleifur Gunnarsson, Víkingur R. ('90)
Lestu um leikinn

Víkingur endaði í 19. sæti í Sambandsdeildinni og fer í umspil um að leika í 16-liða úrslitum. Umspilið verður í febrúar og ljóst er að Víkingur mun mæta Olimpija Lúbljana frá Slóveníu eða Panathinaikos frá Grikklandi í umspilinu. Dregið verður á morgun en Sverrir Ingi Ingason er meðal leikmanna Panathinaikos.

Víkingur fékk alls átta stig í deildarkeppninni en liðið gerði 1-1 jafntefli gegn LASK í Linz í Austurríki í kvöld.

Lestu um leikinn: LASK 1 -  1 Víkingur R.

Víkingar byrjuðu leikinn betur og náðu verðskuldað forystunni á 23. mínútu. Ari Sigurpálsson skoraði af vítapunktinum en hendi var dæmd á leikmann LASK eftir langt innkast Davíðs Atlasonar. Ari sendi markvörðinn í rangt horn úr vítinu.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði LASK eftir góða sókn. Nikolaj Hansen komst nálægt því að koma Víkingi aftur yfir en skallaði í þverslána og staðan var 1-1 í hálfleik. Ekkert var skorað í seinni hálfleiknum.

Það rigndi mikið í seinni hálfleik og þungur völlurinn gerði mönnum erfitt fyrir. Það var fátt um færi eftir hlé og Víkingar fögnuðu vel þegar flautað var til leiksloka. Víkingar fara í útsláttarkeppnina og halda áfram að skrifa söguna, þeir hafa átt glæsilegt Evróputímabil.

Áður en lokaflautið kom fékk Karl Friðleifur Gunnarsson hinsvegar réttilega sitt annað gula spjald og þar með rautt. Hann verður því í banni í fyrri leik umspilsins. Það sama gildir um fyrirliðann Nikolaj Hansen sem fékk gult í leiknum í kvöld og fær bann vegna uppsafnaðra áminninga.
Athugasemdir
banner
banner
banner