Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 20. janúar 2022 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Væri til í að sjá Albert fara núna því „staðan verður leiðinleg og erfið"
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson verður samningslaus næsta sumar og óvíst hvert hans næsta skref verður. Guðmundur Benediktsson, faðir hans, segist ekkert vita hvert sonurinn er að fara.

Albert hefur verið lengi í Hollandi og hefur hann leikið með AZ frá 2018. Það er staðfest að hann sé á förum en ekki er vitað hvert, eða hvenær. Hann gæti farið núna í janúar ef sá möguleiki er fyrir hendi.

Gummi Ben var gestur í Chess After Dark á dögunum og var þar spurður út í málefni Alberts.

„Ég veit það ekki, Albert veit það ekki, það veit enginn," sagði Guðmundur.

„Það gæti breyst á morgun, í vor eða næsta sumar. Vonandi verður eitthvað á hreinu í þessum mánuði. Ef að ég fengi að ráða frá A til Ö, þá myndi ég frekar vilja að hann færi í janúarglugganum. Staðan verður leiðinleg og erfið út tímabilið því Albert verður ekki notaður mikið. Hann neitar að skrifa undir nýjan samning og er að bíða eftir að samningurinn rennur út," sagði Gummi. Þjálfari AZ vill ekki nota Albert mikið, fyrst leikmaðurinn vill ekki vera áfram hjá félaginu.

Af hverju vill Albert fara frá AZ?

„Ég held að hann vilji prófa eitthvað nýtt. Hann er búinn að vera í Hollandi í átta ár. Ég held að það sé fyrst og fremst pælingin, að honum langi að prófa eitthvað nýtt í heiminum. Ég get fullkomlega skilið það."

Gummi vonast til að Albert gangi frá samningi við annað félag sem fyrst, það sé ákveðin áhætta að renna út á samningi ef hann skyldi meiðast alvarlega eða þess háttar - þá sé best að vera búið að ganga frá þessum málum í staðinn fyrir að vera atvinnulaus.

Albert er 24 ára gamall landsliðsmaður sem leikur framarlega á vellinum. Hann hefur verið orðaður við Celtic og Rangers í Skotlandi, og einnig hefur verið talað um áhuga ítalska úrvalsdeildarfélagsins Lazio á honum.

Hægt er að horfa á Chess After Dark með Gumma Ben í heild sinni hér að neðan.


Athugasemdir
banner