Tveimur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í Evrópudeildinni og Sambandsdeildinni eftir framlengingar í Amsterdam og Dublin.
Ajax tók á móti Royale Union Saint-Gilloise frá Belgíu í Evrópudeildinni eftir að hafa sigrað fyrri viðureignina með tveggja marka mun á útivelli.
Royale SG byrjaði af miklum krafti í Amsterdam og tók forystuna í fyrri hálfleik þegar Kevin Mac Allister, eldri bróðir Alexis leikmanns Liverpool, kom boltanum í netið. Skömmu síðar fékk Davy Klaassen að líta beint rautt spjald fyrir að handleika boltann innan eigin vítateigs og nýttu Belgarnir vítaspyrnuna vel.
Staðan var því 0-2, eða 2-2 samanlagt, og gestirnir frá Belgíu voru manni fleiri í rúmlega klukkustund í venjulegum leiktíma en tókst ekki að skora annað mark þrátt fyrir góðar tilraunir.
Belgarnir voru sterkari en Ajax gerði vel að halda út og fá leikinn í framlengingu, þar sem þeir fengu dæmda vítaspyrnu snemma og skoraði Kenneth Taylor af punktinum.
Leikmenn Ajax vörðust eins gífurlega vel í framlengingunni. Saint-Gilloise átti sextán marktilraunir en boltinn rataði ekki í netið og tryggði Ajax sig áfram í 16-liða úrslitin þrátt fyrir tap á heimavelli.
Molde er þá komið áfram í 16-liða úrslit Sambandsdeildarinnar eftir heimsókn til Dublin. Norðmennirnir töpuðu fyrri leiknum afar óvænt á heimavelli og þurftu að hafa fyrir því að komast áfram.
Molde var sterkari aðilinn en átti erfitt með að skapa sér færi. Magnus Eikrem tók forystuna snemma fyrir Molde og var ekki meira skorað í venjulegum leiktíma. Því var gripið til framlengingar eftir bragðdaufar 90 mínútur.
Isak Amundsen fékk seinna gula spjaldið sitt í liði Molde á 93. mínútu og því spiluðu Norðmennirnir framlenginguna einum leikmanni færri.
Molde varðist vel og fór viðureignin í vítaspyrnukeppni, þar sem allir leikmenn nema Aaron Greene skoruðu úr sínum spyrnum. Molde vann því vítakeppnina og tekur þátt í 16-liða úrslitunum.
Ajax 1 - 2 Royale SG (3-2 samanlagt)
0-1 Kevin Mac Allister ('16)
0-2 Promise David ('28, víti)
1-2 Kenneth Taylor ('93, víti)
Rautt spjald: Davy Klaassen ('25, Ajax)
Shamrock 0 - 1 Molde (1-1 samanlagt)
0-1 Magnus Eikrem ('10 )
Rautt spjald: Isak Helstad Amundsen, Molde ('90)
4-5 í vítaspyrnukeppni
Athugasemdir