Fram hefur verið að styrkja leikmannahópinn sinn fyrir komandi átök í Bestu deild kvenna og er Halla Helgadóttir komin til félagsins úr röðum FH.
Halla er 23 ára miðvörður sem gerir tveggja ára samning við Fram, út tímabilið 2026.
Hún lék ellefu leiki með FH í Bestu deildinni í fyrra en hún reyndi fyrst fyrir sér í efstu deild með Selfyssingum sumarið 2018. Halla á í heildina 33 leiki að baki í efstu deild en þetta er í annað sinn sem hún gengur til liðs við Fram.
Halla fór einnig til Fram á láni sumarið 2021 og stóð sig gífurlega vel í 2. deildinni. Núna hefur hún ákveðið að skipta alfarið yfir í Úlfarsárdalinn.
Halla er uppalin hjá Hetti á Egilsstöðum og er sem stendur í námi við Florida Tech háskólann í Bandaríkjunum.
Athugasemdir