Líklegra að Nunez verði seldur frá Liverpool - Wharton einn af þeim sem eru orðaðir við Man Utd - City á leið í endurbyggingu - Newcastle til í...
banner
   fim 20. febrúar 2025 16:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Úr miklu tapi í hagnað - Mjög jákvæð sveifla á rekstri Fjölnis
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það er að birta til hjá Fjölni miðað við ársreikning félagsins en umræðan í kringum Fjölni og peningamálin í Grafarvogi hefur verið ansi neikvæð síðustu misseri. Fótboltadeildin var rekin með 33 milljóna króna tapi 2023. Á síðasta ári náðist heldur betur að snúa rekstrinum við og var deildin rekin með fjögurra milljón króna hagnaði.

Tekjur deildarinnar jukust um 35 milljónir milli ára og að sama skapi lækkaði launakostnaðurinn lítillega. Annar kostnaður hreyfðist ekki mikið.

Síðasta ár var metár hjá Fjölni þegar kom að kostnaðaraðilum. Fótbolti.net ræddi við Björgvin Jón Bjarnason sem er formaður fótboltadeildar Fjölnis

„Þetta er ekki einhver einn stór styrktaraðili. Okkur þætti mjög vænt um að eignast stóran styrktaraðila en í okkar tilfelli er þetta fjöldinn. Fjölnir er hverfislið og það eru margir sem hafa lagt hönd á plóg, erum ekki með stóra styrktaraðila."

Einnig hækkuðu tekjur deildarinnar um tíu milljónir út af leikmannasölum. Fjölnir seldi þá Júlíus Mar Júlíusson og Halldór Snær Georgsson til KR á síðasta ári og Hákon Ingi Jónsson fór í HK. Þá fékk Fjölnir tekjur af leikmannasölum úr kvennaliðinu en Anna María Bergþórsdóttir var m.a. seld til KR síðasta sumar. Fjölnir fór úr því að fá fjórar milljónir fyrir leikmannasölur árið 2023 í 14 milljónir árið 2024.

Salan á Jónatan Guðna Arnarssyni til Norrköping í Svíþjóð er skráð á rekstrarárið 2025

Markmið Fjölnis er að halda áfram að skila hagnaði. „Við finnum að fjáröflunin gengur betur. Það þurfti að hafa fyrir því að koma okkur í hagnað."

„Það er að fjölga iðkendum í yngri flokkum í fyrra og það er fjölgun það sem af er þessu ári líka. Það eflir fjárhaginn þó að barna- og unglingastarfið eigi ekki að skila hagnaði. Fleiri iðkendur tryggja okkur í því að það starfið sé þannig."

„Það að vera með afrekstarf er ferli sem tekur mjög langan tíma. Nýir iðkendur í dag gætu orðið afreksfólk eftir 12-15 ár. Það þarf að vera langtímahugsun í þessu. Þess vegna fórum við í þessa afreksstefnu og reynum með virkum hætti að gefa okkar yngri leikmönnum tækifæri til að sýna sig og sanna,"
segir Björgvin.

Meistaraflokkur karla hjá Fjölni er í Lengjudeildinni og kvennaliðið er í 2. deild. Það voru tíðindi af karlaliðinu í síðustu viku þegar Herra Fjölnir, Gunnar Már Guðmundsson, var ráðinn þjálfari liðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner