Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 20. september 2022 22:38
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari Ögmundar rekinn eftir tæpa tvo mánuði í starfi - Michel mætir aftur
Carlos Corberán fékk ekki mikinn tíma til að sanna sig í Aþenu
Carlos Corberán fékk ekki mikinn tíma til að sanna sig í Aþenu
Mynd: EPA
Spænski þjálfarinn Carlos Corberán var um helgina rekinn frá gríska meistaraliðinu Olympiakos eftir 2-1 tap fyrir Alan Pardew og lærisveinum hans í Aris, en Corberán entist ekki lengi hjá stórveldinu.

Spánverjinn tók við liðinu í byrjun ágúst eftir að hafa gert ágætis hluti með Huddersfield Town í ensku B-deildinni.

Liðið hefur ekki riðið feitum hesti undir hans stjórn og er nú sjö stigum á eftir toppliði og erkifjendum liðsins í Panathinaikos en það var tapið fyrir Aris um helgina sem gerði útslagið.

Olympiakos leiddi með einu marki þegar lítið var eftir en þá kom Aris til baka og skoraði tvö mörk með stuttu millibili.

Þolinmæðin í Grikklandi er ekki mikil. Þar verða þjálfarar að ná úrslitum strax og ef það tekst ekki þá fá menn sparkið og það varð raunin. Olympiakos sendi frá sér yfirlýsingu eftir leikinn og kom þar fram að Corberán væri farinn frá félaginu.

Þetta eru mögulega góðar fréttir fyrir Ögmund Kristinsson sem er á mála hjá félaginu. Hann er ekki skráður í Evrópudeildarhóp liðsins og ekki fengið tækifæri með aðalliðinu til þessa en fær nú sénsinn til að heilla nýjan þjálfara.

Spænski þjálfarinn Michel er tekinn við keflinu en þetta er í annað sinn sem hann er við stjórnvölin. Hann vann grísku deildina tvisvar frá 2013 til 2015 og er nú vonast eftir því að hann geti snúið við taflinu í Aþenu.
Athugasemdir
banner
banner
banner