Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 20. október 2021 23:08
Brynjar Ingi Erluson
Davíð Kristján lagði upp í jafntefli - Fyrsti sigur Emils
Davíð Kristján lagði upp annað mark Álasunds
Davíð Kristján lagði upp annað mark Álasunds
Mynd: Davíð Kristján Ólafsson
Emil Hallfreðsson náði í fyrsta sigurinn með Virtus Verona
Emil Hallfreðsson náði í fyrsta sigurinn með Virtus Verona
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Kristján Ólafsson lagði upp mark er Álasund gerði 3-3 jafntefli við Ranheim í norsku B-deildinni í kvöld og þá vann Emil Hallfreðsson fyrsta leik sinn með ítalska C-deildarliðinu Virtus Verona.

Davíð hefur verið frábær með Álasundi á þessari leiktíð og hélt góðu formi sínu gangandi með því að leggja upp annað mark liðsins í 3-3 jafntefli gegn Ranheim.

Hann er nú kominn með sex stoðsendingar í B-deildinni á þessu tímabili og er Álasund í 2. sæti með 47 stig þegar sex umferðir eru eftir.

Tvö efstu liðin fara beint upp í efstu deild en liðin í 3. - 6. sæti fara í umspil.

Álasund mætir Sandnes Ulf á heimavelli á sunnudag.

Fyrsti sigur Emils

Emil Hallfreðsson gekk til liðs við ítalska C-deildarliðið Virtus Verona á frjálsri sölu frá Padova. Hann kom inn í byrjunarliðið í síðasta leik í 1-1 jafntefli gegn Giana Erminio og í dag hafðist fyrsti sigurinn gegn Seregno, 3-1.

Emil byrjaði þann leik en var skipt af velli á 61. mínútu. Virtus Verona er í 14. sæti í A-riðli deildarinnar með 9 stig, jafnmörg og Seregno sem er í 13. sæti.

Næsti leikur Virtus er gegn Fiorenzuola á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner