„Skemmtilegur leikur, mér fannst við spila mjög flottan fótbolta. Héldum boltanum vel, náðum að spila í gegnum miðjuna og búum til færi trekk í trekk. Ósáttur að vinna ekki leikinn," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, eftir 1-1 jafntefli gegn Stjörnunni.
Lestu um leikinn: Fram 1 - 1 Stjarnan
Fred Saraiva skoraði glæsilegt mark í leiknum en hann spilaði töluvert framar en oft áður, í raun sem fremsti maður ásamt Jacob Byström.
„Það er möguleiki fyrir hann að vera í þessari stöðu. Við höfum verið án Vuk í níu leikjum og vorum í smá tíma að finna hvernig við gætum leyst þann missi. Fred var því settur ofar á völlinn til að leysa senter eða tíu hlutverk með smá frjálsræði, sem hefur heppnast."
Örvar Eggertsson jafnaði leikinn aðeins fimm mínútum eftir að Fram komst yfir.
„Það var alls ekki gott. Þetta var fyrsta færið þeirra í leiknum. Maður getur sagt að þetta sé klaufalegt en það er alltaf eitthvað að í öllum mörkum.
Fram mætir FH í lokaumferðinni og getur þar tryggt sér fimmta sætið með sigri.
„Það er enginn brjálæðisleg gulrót en það hjálpar að ná í góð úrslit. Við þurfum að vinna FH á útivelli og það er bara áskorun. Það er ekki mikið undir en við þurfum að mæta til leiks eins og í dag."
Athugasemdir